Sæl og takk fyrir spurninguna.
Það á engin skilið að líða illa og það er gott hjá þér að leita þér aðstoðar. Framhaldsskólaárin eiga að vera þau bestu í lífi þínu (hingað til). Að þú skulir ekki njóta þeirra er eitthvað sem þú átt ekki að þurfa að sætta þig við. Það er hulin ráðgáta af hverju sumt fólk fellur ekki kramið hjá öðrum en ekki hengja haus og hugsa um hvað öðrum finnst. Ræktaðu frekar sambandið við vini þína og njóttu þess að vera ung.
Varðandi það að skipta um skóla þá hvet ég þig eindregið til þess og finnst flott hjá þér að þú virðist vera búin að taka þá ákvörðun, það hafa því miður ekki allir kjark til þess. Ég skil vel að þú viljir ekki missa úr önn, en ein önn til eða frá skiptir engu í stærra samhenginu. Hvort sem fólk útskrifast á þremur, fjórum eða fimm árum þá endar það með sama stúdentspróf óháð skóla og flestir hafa ekki hugmynd um hvað þeir vilji gera næst og eyða jafnvel smá tíma á vinnumarkaðnum áður en t.d. er haldið í háskóla.
Þú átt ekki að sætta þig við að líða illa en ef þú vilt þrauka þessa önn þá gerir þú það á sama tíma og þú ræktar sambandið við raunverulega vini þína. Þú talar um að þú sért í bekk og kannski hentar það fyrirkomulag þér ekki. Þú ættir að skoða skóla með áfangakerfi þar sem þú ert ekki alltaf með sama fólkinu í tímum og kynnist alltaf nýju fólki á hverri önn.
Ég hvet þig einnig að koma þér í samband við námsráðgjafa í skólanum þínum og segja frá líðan þinni og fá ráð þar líka.
Gangi þér sem allra best!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?