Hvað er vistkerfi í krukku?

Eins og nafnið gefur til kynna er hugmyndin að búa til lítið sjálfbært lífríki inn í krukku þar sem fullkomin hringrás lífsins ríkir eins og úti í náttúrunni. Ef leiðbeiningunum er vandlega fylgt og kannski með smá heppni getur vistkerfi í krukku lifað svo mánuðum skiptir eða jafnvel í nokkur ár án nokkurrar afskiptasemi eða viðhalds eins og að opna krukkuna, vökva, klippa o.þ.h. Eftirfarandi grein fjallar um hvernig skal búa til vistkerfi á þurru landi á einfaldan máta en til eru margar flóknari uppskrifir. Einnig er hægt að gera svipað með vatns eða saltvatns umhverfi.

Hvernig bý ég vistkerfi í krukku til?

Áður en hafist er handa er gott að ganga um umhverfið sem þið viljið líkja eftir. Fáið hugmyndir og takið eftir við hvaða aðstæður plönturnar lifa eins og hitastig, birtu og raka. Berið virðingu fyrir náttúrunni og safnið öllu saman með það í huga að skemma nærliggjandi umhverfi sem minnst.

Það eina sem þú þarft er:

  • Stór krukka með loki (helst með klemmuloki)
  • Möl
  • Grisju, götóttan efnisbút eða fíngert net
  • Mold
  • Lífverur: t.d. mosa, fléttur, litlar plöntur, sveppir, skordýr, steinar og greinar (ath varast skal plöntur sem munu þurfa mikið pláss í framtíðinni)
  • Vatn

Setjið möl í botninn sem þekur u.þ.b. ¼ af krukkunni og grisjuna ofaná. Mikilvægt er að láta grisjuna þekja malarlagið til að búa til svokallað ,,frárennslikerfi’’ fyrir óþarfa vatn úr moldinni sem getur þá safnast neðst án þess mynda myglu. Látið moldarlagið vera a.m.k. helmingi stærra og setjið jafnt ofan á grisjuna og þjappið hóflega. Eftir það má skreyta krukkuna að vild. Áður en krukkunni er lokað skal bæta við örlitlu vatni til að bæta fyrir hugsanlega þornun sem gæti hafa átt sér stað. Veljið þurran og svalan stað í góðu skjóli og ekki í beinu sólarljósi.

Hvað svo?

Gaman er að taka myndir reglulega og bera saman breytingarnar eða skrá hjá sér hvaða lífverur koma og fara. Eðlilegt er að móða eða raki myndist á morgnanna og kvöldin á glerinu og yfir daginn mun safnast vatn í botninn. Ef allt gengur eftir mun ekkert viðhald vera nauðsynlegt. Það er í lagi að opna krukkuna og laga til en ekki æskilegt að gera það of oft eða að óþörfu og nota skal hrein verkfæri á við skæri, tangir, prjóna o.fl. Bætið alltaf við örlitlu vatni sem gæti hafa gufað upp áður en krukkunni er lokað.

Hvað getur farið úrskeiðis?

Helstu vandamál sem geta komið upp má rekja til einhverskonar ójafnvægis t.d. of mikið eða lítið af raka, hita, birtu, skordýrum eða plöntum. Reynið eftir bestu geta að finna lausn án þess að opna krukkuna; aðeins það að setja krukkuna á aðra hillu getur hjálpað.

Annað sem getur komið upp er mygla. Rætur plantna eða aðrar lífverur rotna í botninum eða mygla myndast á yfirborðinu. Botnmyglan getur stafað af misheppnuðu frárennslikerfi og of miklum vökva eða hita. Annaðhvort var of lítið af möl sett í byrjun eða of fíngerð möl notuð eða að skiljan á milli moldar og malar rofnaði með tímanum vegna ferðalaga orma eða annarra lífvera á milli laganna. Því miður er lítið hægt að gera við því en hugsanlega með tímanum gæti kerfið aðlagað sig að nýjum aðstæðum og nýtt líf kviknað í kjölfarið. Sömuleiðis ef rotnun er á yfirborðinu; leyfið smá tíma að líða og sjáið hvað gerist. Ef það virkar ekki má opna krukkuna, hleypa inn nýju lofti og hreinsa til

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar