Í flestum starfsauglýsingum eru teknar fram ákveðnar hæfniskröfur sem atvinnurekandi er að leita eftir fyrir þetta tiltekna starf. Það er hins vegar algengur misskilningur að þú þurfir að uppfylla allar hæfniskröfurnar til að koma til greina. Með þessari grein viljum við leiðrétta svoleiðis hugsunarhátt og stappa í þig stálinu til að sækja um draumastarfið!
Hvaða hæfniskröfur eru nauðsynlegar?
Það er hægt að skipta hæfniskröfum upp í tvo flokka, skilyrði og æskilegar kröfur.
Uppfyllir þú ekki þær kröfur sem eru algjört skilyrði kemur þú ekki til greina í þetta ákveðna starf. Æskilegar kröfur eru hins vegar miklu sveigjanlegri og oft þarftu ekki að uppfylla nema ákveðna hluti þeirra til að eiga raunhæfan möguleika á að landa starfinu. Í góðum starfsauglýsingum kemur yfirleitt skýrt fram í hvorn flokkinn hæfniskröfurnar falla, en því miður er það ekki alltaf raunin. Því er gott að vita algeng dæmi um hvort fyrir sig.
Skilyrði
Skilyrði eru oft hæfniskröfur sem hægt er að svara með já/nei og er lítið svigrúm þar á milli. T.d. eru aldurstakmörk, ákveðin menntun, tungumálakunnátta og önnur réttindi algeng skilyrði. Orðalag í svoleiðis hæfniskröfum er líka oftast takmarkandi (skilyrði, nauðsynlegt, að lágmarki, þarf/verður að).
Dæmi um slíkar hæfnislýsingar eru:
- Löggilt starfsleyfi iðjuþjálfa
- Góð íslenskukunnátta er skilyrði
- Bílpróf er nauðsynlegt
- Viðkomandi verður að getað byrjað strax
- Hrein sakaskrá
Æskilegar kröfur
Æskilegar hæfniskröfur eru oft huglægari, þ.e. það er ekki jafn svart og hvítt hvort þú uppfyllir viðkomandi kröfu. Hér eru oftast nokkrir hlutir nefndir og vonast er eftir að umsækjendur uppfylli nokkra þeirra og geti svo tileinkað sér hitt eins og við á.
Orðalag í æskilegum kröfum er oftast opnara og gefur ákveðinn sveigjanleika til kynna (æskilegt, er kostur, gott ef).
Dæmi um slíkar hæfnislýsingar eru:
- Þekking á HTML/CSS er kostur
- Þekking á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf er æskileg
- Viðkomandi getur byrjað sem fyrst eða eftir samkomulagi
- Gott ef umsækjandi er með stúdentspróf
- Reynsla af túlkun kjarasamninga er kostur
Hvar er línan dregin?
Athugið að sumar hæfniskröfur geta fallið í báða flokka og því er mikilvægt að skoða orðalagið vel. Hér að neðan eru útgáfur af hæfnislýsingu þar sem lyftarapróf getur verið annað hvort skilyrði eða æskileg krafa.
- Lyftarapróf er nauðsynlegt
- Kostur ef umsækjandi er með lyftarapróf
Í fyrra dæminu eru þau að leita eftir einhverjum sem getur stokkið strax inn og unnið á lyftara. Í síðara dæminu vill fyrirtækið helst fá starfsmann sem hefur lyftarapróf en er tilbúið að líta framhjá því eða þjálfa viðkomandi til að öðlast þá hæfni.
Tökum annað dæmi:
- Að lágmarki 3 ára reynsla af sambærilegum störfum
- 3 ára reynsla af sambærilegum störfum
Hérna er smávægilegur munur af nánast sömu setningunni. Í fyrri útgáfunni er „að lágmarki“ sett á undan til að gefa í skyn að meiri reynsla er líklegast nauðsynleg til að eiga raunhæfan möguleika á þessu starfi (líklegra hærra sett starf). Í seinni útgáfunni er talað um 3 ár af reynslu en það er oftast sveigjanlegt upp að vissu marki. Ef þú ert bara með 1,5-2 ára reynslu skaltu alls ekki láta þessa tölu halda aftur af þér að sækja um. Umsækjandi sem hefur styttri starfsreynslu, en kemur kannski frá krefjandi vinnustað, getur alveg verið hæfari þrátt fyrir minni reynslu í árum.
Einnig er mikilvægt að setja hæfniskröfurnar í samhengi við starfið sem sótt er um.
Tökum tvö dæmi:
- Þekking og reynsla af færslu launa og vinnu með kjarasamninga.
- Reynsla af sölustörfum.
Í fyrra dæminu getur þessi hæfniskrafa komið fram í mismunandi starfsauglýsingum. Ef þú ert að sækja um starf launafulltrúa er þetta að öllum líkindum nauðsynleg reynsla sem þú þarft að hafa. Sé þetta hins vegar starf mannauðsfulltrúa, þar sem það er kostur að hafa grunnþekkingu af launamálum, er þessi hæfniskrafa líklegast sveigjanlegri.
Í seinna dæminu þarf aftur að setja þetta í samhengi við starfið og þína eigin reynslu/þekkingu. Segjum sem svo að þú hefur unnið áður sem söluráðgjafi í eitt sumar. Sé starfið sölufulltrúi á reynsla þín vel við og þú ættir klárlega að sækja um hafir þú áhuga á því. Hins vegar gæti þessi sama setning komið fram í starfsauglýsingu fyrir stjórnendastöðu, eins og sölustjóri, þar sem ítarlegri reynsla er nauðsynleg.
Í báðum dæmunum væri auðvitað betra ef starfsauglýsingin væri nákvæmari, en stundum þarf að lesa aðeins á milli línanna til að átta sig á því hvort þú eigir raunhæfan möguleika á starfinu. Einnig er hægt að hafa samband og spyrja ef eitthvað er óljóst, en í flestum starfslýsingum er gefinn upp tengiliður sem gefur nánari upplýsingar. Þig gæti t.d. vantað eitt af skilyrðunum en hefur marga aðra kosti/hæfni/reynslu sem gæti nýst vel í þessu starfi. Þá er bara um að gera að spyrja hvort þetta sé algjört skilyrði eða hvort þau séu tilbúin að líta fram hjá því fyrir mjög góðan umsækjenda. Það er oft meiri sveigjanleiki fyrir hendi en þú gerir ráð fyrir.
Hafðu trú á sjálfri/um þér!
Það er fullkomlega eðlilegt að uppfylla ekki allar kröfurnar eða að það sé vöntun á einhverjum sviðum. Þá er tilvalið að sækja um og svo reyna að selja þeim að þú getir tileinkað þér það sem vantar upp á. Gott hugarfar, áhugi og vilji til að vaxa vegur oftast þyngra en aðeins meiri hæfni á pappír. Þú tapar heldur ekkert á því að sækja um, það versta sem getur gerst er að þú færð nei og smá auka boost í reynslubankann af því að sækja um störf.
Svo má jafnvel spyrja sig hvort það sé yfirhöfuð hollt að sækja um störf þar sem þú uppfyllir 100% af hæfniskröfunum. Viltu byrja í starfi þar sem þú kannt allt nú þegar og getur ekki vaxið jafn mikið?
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?