Vinna með skóla?

Þegar maður er í námi er pyngjan oft mun léttari en maður helst vildi óska. Þótt mikilvægt sé að stunda námið jafnt og þétt yfir önnina og nýta krafta sína mest í það, má stundum finna smá tíma aflögu til að auka tekjurnar. Áttavitinn hefur tekið saman smá hugmyndalista yfir hlutastörf, sem hægt er að verða sér út um á meðan maður er í námi;

Úthringingar

Mörg fyrirtæki eru að leita að fólki til að sitja við símann nokkur kvöld í viku. Úthringingarnar geta til dæmis verið símasala, eða kannanir af ýmsu tagi. Það er gríðarlega gaman að þjálfa söluhæfileikana í gegnum símann og sá hæfileiki nýtist í fjölbreyttum störfum síðar meir. Kannanir geta einnig verið skemmtileg leið til að kynnast samborgurum sínum og mismunandi viðhorfum.
Það má prófa að hafa samband við:

Afgreiðslu- og þjónustustörf

Veitingastaðir, barir og margar verslanir eru í leit að fólki, sem er til í að vinna á óhefðbundnum tímum; á kvöldin, á nóttinni eða um helgar. Afgreiðslu- og þjónustustörf geta verið mjög ólík eftir fyrirtækjum og allir ættu að geta fundið stað sem þeim líkar. Sumir kunna betur við að vinna á rólegu kaffihúsi eða í bókabúð. Aðrir vilja frekar vera í hringiðu djammlífsins og auka tekjur sínar á meðan aðrir drekka þær frá sér, en það má gera með því að þjóna á barnum eða tína upp glösin eftir fólk. Margar matvöruverslanir og skyndibitastaðir leita líka að liðsauka á kvöldin, næturnar og um helgar.

Þjónustustörf eru ekki bara afgreiðsla

Skyndibitastaðir eru oft á höttunum eftir fólki til að keyra út mat, og veitingastaðina vantar oft dugnaðarforka í uppvask. Oft er líka þörf á blaðberum til að bera út blöð á morgnanna. Blaðberastörf eru frábær áskorun fyrir þá sem vilja vakna fyrr á morgnana og frábær útivist í upphafi dagsins. Það er um að gera að líta í öll horn, þegar farið er á stúfana í leit að hlutastarfi.

Félags og frístundarmiðstöðvar.

Félagsmiðstöðvar og frístundarheimili bjóða oft uppá  sveigjanleg störf sem henta með skóla þar sem starfið hefst yfirleitt að loknum skólatíma barna.  Starfshlutfallið er yfrleitt á bilinu 30% til 50% og hefst yfirleitt eftir hádegi eða er á kvöldin. Kannaðu heimasíður sveitarfélaga eftir lausri stöðu.

Umönnunarstörf

Fjölbreytt umönnunarstörf kunna að vera í boði fyrir þá sem leita að hlutastörfum. Á sambýlum og í húsnæði eldri borgara er oft þörf á næturvörðum til að sitja vaktina og vera til staðar ef eitthvað kemur upp á. Einnig er oft verið að leita að fólki í liðveislu fyrir börn eða fatlaða, en það snýst um að veita félagsskap og gera skemmtilega og uppbyggilega hluti saman.

Ræstingar

Það er alltaf þörf á fólki í ræstingar. Ef ræstingum er ekki sinnt sem skyldi í fyrirtækjum og stofnunum landsins, legst öll starfsemi þeirra niður. Ræstistörf eru því í raun grunnstoðir atvinnulífsins. Ræstingar eru oftar en ekki framkvæmdar utan hefðbundins vinnutíma og því tilvalið hlutastarf fyrir námsfólk. – Annar kostur við ræstistörf er að þau eru frábær líkamsrækt.

Vantar fjölskyldu eða nágranna einhverja aðstoð?

Oft þarf ekki að leita langt til að bjóða fram krafta sína. Fjölskyldufólk er oft í leit að ábyrgum aðila sem það treystir til að passa börnin af og til, og sumir vilja gjarnan borga fyrir að láta þrífa heima hjá sér eða þrífa bílinn. Slík aukavinna getur oftar en ekki verið mjög heimilisleg og hugguleg og boðið upp á skemmtileg samskipti.

Þá er ungt fólk oft mun flinkara á tölvur og tækni en eldra fólk. Þú gætir reynt að notfæra þér það, t.d. með því að bjóðast til að kenna eldra fólki að nota tölvur, versla á netinu o.fl. Svo gætirðu jafnvel boðist til að búa til og sjá um facebook og twitter síður lítilla fyrirtækja. Þá væri sniðugt að bjóðast til að gera fyrstu síðuna frítt til að fá meðmæli, en fara svo að gera það gegn gjaldi. Svona tækifæri gætu verið byrjunin á farsælum rekstri.

Hvert er draumastarfið?

Ef mann dreymir um að komast á ákveðinn stað í tilverunni að námi loknu, er alls ekki úr vegi að fara að huga að því strax. Gott er að mynda strax tengsl við fólkið í þeim bransa, sem mann langar til að vinna við og vita hvort það þarf á hjálparhönd að halda. Slík starfsreynsla getur gefið mun meira af sér en klink í vasann og stytt leiðina upp á við til muna.

Að lokum hvetjum við þig til að kynna þér eftirfarandi greinar á Áttavitanum

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar