Flestar hugmyndir krefjast þess að maður vinni þær í samstarfi við annað fólk og leiti jafnvel til styrktaraðila. Til þess að koma því í kring þarf auðvitað að kynna hugmyndina sína og þá er alltaf ákveðin hætta á að einhver reyni að eigna sér hugmyndina manns og hagnast á henni sjálfur. Oft enda slík mál fyrir dómstólum og stendur þá gjarnan orð gegn orði. Mótaðilinn getur t.d. sagt það vera tilviljun að hans hugmynd líkist hugmyndinni manns svo mjög, eða jafnvel reynt að halda því fram að maður hafi sjálfur stolið hugmyndinni af honum. Þá er gott að hafa verndað hugmyndina.
Hér er ein aðferð til að vernda hugmyndina sína áður en farið er út í að kynna hana fyrir öðrum:
- Skrifa hugmyndina niður á blað, eins ítarlega og hægt er og rita dagsetningu, stað og undirskrift.
- Teikna upp skissur, brenna gögn á geisladiska og týna til öll fylgigögn sem styðja tilurð hugmyndarinnar og hvernig hún skuli útfærð.
- Fá vitundarvott, einn eða tvo aðila sem maður treystir, til að kvitta fyrir því að þeir hafi orðið vitni að því þegar þetta var skrifað.
- Senda sjálfum sér þetta í lokuðu, innsigluðu umslagi í ábyrgðarpósti.
- Geyma bréfið innsiglað ásamt póstkvittun með greinanlegri dagsetningu.
- Gott er að geyma þessa hluti í öryggishólfi.
- Sumir kjósa að innsigla bréfið á gamla mátann; með bræddu vaxi og stimpli og skrifa hugmyndina á löggiltan skjalapappír. Löggiltan skjalapappír og innsigli má oftast kaupa í ritfangaverslunum.
- Umslagið má svo ekki opna fyrr en í réttarsal ef til þess kemur. Hafi innsiglið verið rofið og bréfið opnað hefur það enga þýðingu lengur.
- Skynsamlegt er að senda sér tvö eða þrjú bréf og geyma þau á mismunandi stöðum. Bæði vegna þess að eitthvað gæti komið fyrir bréfið, og einnig gæti maður þurft að færa sannanir fyrir hugmyndinni sinni oftar en einu sinni.
Lesa má meira um verndun hugverka og tegundir hugverkaréttinda á vef Einkaleyfastofunnar.
Á vef stjórnarráðsins má lesa meira um höfundarrétt, höfundalög, alþjóðasáttmála, ESB tilskipanir um höfundarétt og ýmislegt fleira.
Á Áttavitanum má finna yfirlit yfir á þriðja hundrað styrki og sjóði sem styrkja margvísleg verkefni.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?