Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að hjúkrunarfræðingum.

Hvað gerir hjúkrunarfræðingur?

Til þess að geta kallast hjúkrunarfræðingur þarft þú að hafa lokið háskólanámi í hjúkrunarfræði og öðlast hjúkrunarleyfi. Hjúkrunarfræðingar bera faglega ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu og starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Helstu verkefni hjúkrunar eru leiðbeiningar, ráðgjöf og stuðningur við sjúklinga og aðstandendur þeirra, bein aðstoð og umönnun sjúklinga, endurhæfing, rannsóknir og stjórnun.

Hvernig veit ég hvort hjúkrunarfræði sé eitthvað fyrir mig?

Ertu umhyggjusöm(samur) og berð virðingu fyrir fólki óháð aldri þess og fyrri störfum? Hefurðu áhuga á að bæta líðan, efla heilbrigði og lina þjáningar fólks? Ef svarið er já, þá er hjúkrunarfræði hugsanlega fyrir þig.

Hvar lærir maður að verða hjúkrunarfræðingur?

Hjúkrunarfræðinám er fjögurra ára grunnnám og lýkur með BS – gráðu í hjúkrunarfræði. Starfsþjálfun fer fram á öllum námsárum. Á Íslandi er hægt að nema hjúkrunarfræði við tvo skóla:

Háskólann á Akureyri og
Háskóla Íslands

Hvar mun ég svo starfa sem hjúkrunarfræðingur?

Starf hjúkrunarfræðinga er fjölbreytt og krefjandi og fjölbreytt atvinnutækifæri bíða verðandi hjúkrunarfræðinga, bæði hérlendis og erlendis. Hjúkrunarfræðingar starfa víðsvegar í þjóðfélaginu, meðal annars á sjúkrahúsum, heilsugæslum, heimahúsum, í skólum og fyrirtækjum. Ef þetta er starf sem heillar þig þá er um að gera að líta inn á heimasíður háskólanna og kanna málið betur.

Heimildir:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Háskóli Íslands
Island.is – Reglugerð

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar