Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að kvikmyndagerð.

Hvað gerir kvikmyndagerðarmaður?

Kvikmyndagerðarmenn sjá, eins og orðið gefur til kynna, um gerð kvikmynda. En hvað felst í því? Meðal verkefna kvikmyndagerðarmanna eru leikstjórn, handritasmíð, kvikmyndataka, klipping, eftirvinnsla og stjórnun og umsýsla kvikmyndaverka. Kvikmyndagerðarmenn geta sérhæft sig í einhverju einu eða starfað á fleiri sviðum innan geirans.

Handritahöfundur:

Handritahöfundar skrifa handrit fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni, leikverk og aðra miðla. Handritahöfundar þurfa að vera skapandi og útsjónasamir, en þeir vinna oft handrit upp úr öðrum ritverkum eins og t.d. skáldsögum. Handritahöfundar eru til dæmis lærðir rithöfundar, en á Íslandi er hægt að læra handritasmíð með leikstjórn í Kvikmyndaskóla Íslands, einnig gæti nám í ritlist við Háskóla Íslands komið að gagni

Leikstjóri:

Leikstjórar leikstýra handritum, bæði eigin og annarra, við gerð kvikmynda, leikrita, auglýsinga og sjónvarpsefnis. Við skrifuðum um starf leikstjóra og þið getið lesið um það hér.

Aðstoðarleikstjóri:

Aðstoðarleikstjóri er hægri hönd leikstjóra og gegnir því mikilvæga hlutverki að passa að allt gangi smurt fyrir sig á tökustað og á æfingum. Eitt af hlutverkum aðstoðarleikstjóra er að svara öllum þeim spurningum sem fólk kann að hafa, nema þeim sem snúa að listrænu hliðinni – því stjórnar leikstjórinn. Segja má að aðstoðarleikstjóri sé framleiðandinn á tökkustað (æfingastað).

Kvikmyndataka:

Að taka upp kvikmynd er aðeins flóknara en að ýta á “rec”-takkann.  Kvikmyndatökumenn velja búnað, svo sem vélar, linsur og filtera, velja sjónarhorn og ramma inn senuna á listrænan máta. Kvikmyndatökumenn þurfa að huga að ýmsu við upptökur í samráði við leikstjóra, svo sem lýsingu, uppstillingu leikara og hreyfingu innan senunar.

Leikmyndagerð:

Leikmyndagerðamenn hanna set (leikmynd) fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Fólk sem sækist í að gera leikmyndir þurfa að hafa mikla innsýn inn í það  hvernig persónur verksins eru og þurfa að hanna leikmynd sem passar þeimi. Engin sérstök menntun er til á Íslandi fyrir þessa grein, en fólk sem er menntað í hönnun og listum starfar oft sem leikmyndahönnuðir – má þá sérstaklega nefna innanhús arkitektúr og myndlist.

Framleiðandi:

Segja má að framleiðandi sé drifkraftur kvikmyndaverka. Framleiðandi sér um að finna góða hugmynd og hrinda henni í framkvæmd. Meðal verkefna framleiðanda er að gera tökuáætlun og kostnaðaráætlun auk þess að dgera samninga við leikara, starfsfólk og aðra sem kunna að koma að verkinu. Framleiðandi er þess vegna manneskjan sem er yfirleitt með símann á lofti og þarf hann að vera góður í mannlegum samskiptum.

Klipping:

Klipparar sjá um að vinna efni sem tekið hefur verið upp og klippa það saman, til þess að búa til lokaverkið. Oft er úr miklu að moða eftir að upptökum lýkur, mörg skot og atriði sem klippa þarf saman svo að heildar myndin skili áhugaverðri sögu. Klipparar bera ábyrgð á, í samráði við leikstjóra, að tímaröð skili tilætluðum hughrifum til áhorfendans.

Eftirvinnsla:

Eftirvinnsla getur verið allt frá einföldum litaleiðréttingum eða hljóðvinnslu upp í afar flóknar tæknibrellur. Eftirvinnsla er hugtak sem notað er yfir alla þá vinnu og breytingar sem fara fram á efninu eftir að það hefur verið tekið upp. Það fer allt eftir eðli myndarinnar og gæða kvikmyndatökunnar hvernig eftirvinnslan fer fram. Stundum þarf minniháttar og einfalda eftirvinnslu en oft er eftirvinnsluferlið flókið og tímafrekt eins og til dæmis í kvikmyndum þar sem mikið af tæknibrellum eru notaðar. Dæmi um eftirvinnslu eru hljóðvinnsla og hljóðhönnun, litaleiðréttingar, green screen vinnsla, tæknibrellur og tölvuteikningar.

Skrifta:

Skrifta er manneskja sem skrifar niður hvernig hver og ein upptaka var, svo hún þarf að fylgjast vel með og halda sér við efnið. Leikstjórinn segir henni oft hvaða taka var best og heldur skriftan utan um slíkar upplýsingar. Hlutverk skriftunnar er að létta klipparanum vinnu sína en hann fær myndbandaskrárnar og fullt af blöðum með ábendingum frá skriftunni.

Hljóðupptökumaður:

Hljóðupptökumaður tekur upp hljóð fyrir hverja einustu senu, ásamt því að taka upp umhverfishljóð sem að hver tökustaður gefur frá sér. Starf hans er þess vegna langt og krefst viðveru. Þetta starf er tilvalið fyrir hljóðsjúkt tæknifólk með brennandi áhuga á því sem það gerir og vill ekki missa af neinu.

Ljósamenn:

Ljósamenn gegna einnig mikilvægu hlutverki við gerð kvikmynda. Þeir eru þeir sem koma fyrstir á sett og með þeim síðustu sem fara að tökum loknum. Hlutverk ljósamanna er að hanna og og sjá um lýsingu í verkinu. Þeir eiga því stóran þátt í að skapa stemningu og tilfinningu myndarinnar.

Runners (aðstoð við framleiðslu):

Runners eru aðstoðarmenn á setti. Í raun getur hver sem er unnið þetta starf, það er að segja það krefst ekki sérstakrar menntunnar. Þetta fólk er mikið á hlaupum, sækja snúrur og dót og keyra um og redda hlutum. Starf þeirra er algjör grunnstoð í kvikmyndagerð og þetta hlutverk er oft leið fólks inn í bransann.

Að auki starfa margar aðrar starfstéttir í kvikmyndaverkefnum, svo sem förðunarfræðingar (sminkur), veitingafólk (catering), leikmunasmiðir (props), leikmyndahönnuðir og fleiri.

Hvernig veit ég hvort kvikmyndagerð sé eitthvað fyrir mig?

Eins og kemur fram hér að ofan eru hlutverk kvikmyndagerðarmanna mjög fjölbreytt og af nógu að taka. Störfin eru jafn misjöfn og þau eru mörg en gegna þó öllu mikilvægu hlutverki við gerð kvikmynda. Ef þú vilt vinna að gerð kvikmynda er því um að gera að beina sjónum þínum að því hlutverki sem vekur mestan áhuga hjá þér eða, ef þú veist ekki hvað það er, prófa að koma þér að sem aðstoðarmaður (runner) einhversstaðar.

Hvar lærir maður að verða kvikmyndagerðarmaður?

Það fer eftir því á hvaða sviði kvikmyndagerðar þú vilt starfa hvaða nám hentar þér og hvar þú getur lært. Hér eru nokkrir skólar sem þú getur byrjað á að skoða.
Í Kvikmyndaskóla Íslands  getur þú lært leikstjórn og handritagerð, leikstjórn og framleiðslu og skapandi tækni (kvikmyndataka, klipping, hljóð og eftirvinnsla).
Í Tækniskólanum, nánar tiltekið Raftækniskólanum, getur þú numið hljóðtækni og þar af leiðandi starfað við hljóðupptökur.
Í Stafrænni hönnun í Tækniskólanum (gamli Margmiðlunarskólinn) geturðu t.d. lært þrívídd­ar­vinnslu og tækni­brellur.
Í Borgarholtsskóla er listnámsbraut sem kennir kvikmyndagerð, grafíska hönnun og leiklist.

Margir kjósa einnig að fara erlendis til að læra. Hér eru nokkrir skólar sem vert er að skoða:

Hvar mun ég svo starfa sem kvikmyndagerðarmaður?

Sem kvikmyndagerðarmaður getur þú starfað á settum, við gerð kvikmynda, auglýsinga og sjónvarpsþátta. Þú getur starfað hjá auglýsingastofum, útgáfufyrirtækjum, sjónvarpsstöðvum og kvikmyndafyrirtækjum svo dæmi séu tekin. Einnig geturðu starfað sjálfstætt.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar