Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að læknum.

Hvað gerir læknir?

Læknar lækna fólk.  Til eru ýmsar sérgreinar lækna þar sem einstaklingurinn sérhæfir sig, t.d. í ákveðnum sjúkdómum eða ákveðnum líkamshlutum.

Hvernig veit ég hvort læknisfræði sé eitthvað fyrir mig?

Ef þig dreymir um að hjálpa fólki, eiga í miklum samskiptum við fólk og leita lausna við vandamálum, þá gæti læknisfræðin heillað. Einnig ef þú ert grúskari og vilt sökkva þér ofan í hlutina, en þá er hægt að velja sér vettvang innan vísinda og rannsókna.  Læknisfræðinám er langt og strangt nám, þannig að þú þarft að vera undir það búin(n) að leggja mikið á þig.  Fyrst og fremst þarftu náttúrulega að hafa áhuga á líkamanum og fólki.

Hvar lærir maður að verða læknir?

Grunnnám

Hægt er að sækja grunnnám í Háskóla Íslands.  Aðgangur í námið er takmarkaður og ákvarðast af inntökuprófi sem haldið er í júní ár hvert. Inntökuprófið kannar þekkingu umsækjenda í íslensku, ensku, stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, náttúrfræði, félagsfræði, líffræði, sálfræði og sögu, auk almennrar þekkingar.  Stúdentspróf er skilyrði fyrir inntöku og mælt er með að nemendur útskrifist frá náttúrufræðibraut, en hún gefur bestan grunn. Þeir 48 stúdentar sem ná bestum árangri í inntökuprófinu fá að hefja nám í læknisfræði að hausti.

Nám í læknisfræðum er 7 ár en skiptist í 3 hluta:

  • Fyrstu 3 árin veita B.S. gráðu í læknisfræði, sem veitir þó ekki sérstök starfsréttindi.
  • Næstu 3 árin er nám sem miðar að embættisprófi í læknisfræði (cand. med. prófi.)
  • Síðasta árið í læknisfræði er starfsnám (kandídatsár) þar sem nemendur öðlast almennt lækningarleyfi og réttindi til að stunda lækningar á Íslandi.

Meistaranám

Háskóli Íslands

Nám til meistaragráðu (MS) í Líf- og læknavísindum, Heilbrigðisvísindum og Íþrótta- og heilsuvísindum er 120 eininga nám að loknu BS-prófi eða fjórða ári í læknisfræði. Algengast er að námið byggist á

  • Rannsóknarverkefni (90 e)
  • Námskeiðum (30 e)

Þetta nám gefur ekki lækningaleyfi en getur verið góð leið eða viðbót fyrir þá sem vilja stunda rannsóknir eða vinna innan heilbrigðisgeirans í öðrum störfum en sem læknir.

Háskólinn á Akureyri

Háskólinn á Akureyri býður upp á þverfaglegt diplóma- eða meistaranám í heilbrigðisvísindum sem gæti verið eitthvað fyrir þig. Lögð er áhersla á virkni nemenda og umræður.  Að jafnaði eru verkefni í stað prófa og kennt er í lotum.  Algengast er að námið byggist á:

  • Rannsóknarverkefni (60 e)
  • Námskeiðum (60 e)

Doktorsnám

Nám til doktorsgráðu (PhD) í Líf- og læknavísindum er 300 eininga nám að loknu BS-prófi eða fjórða ári í læknisfræði, eða 180 eininga námi að loknu MS-námi. Algengast er að námið byggist á:

Eftir MS próf:
Rannsóknarverkefni (150-180 e)
Námskeið  (0-30 e)

Eftir BS próf:
Rannsóknarverkefni (270 e)
Námskeið  (30 e)

Sérfræðinám

Langflestir læknar sérhæfa sig að loknu grunnnámi. Sérfræðimenntun er að lágmarki fimm ára sérhæfð starfsþjálfun undir handleiðslu sérfræðilækna og að því loknu fæst sérfræðipróf. Á Íslandi er unnt að ljúka sérnámi í heimilislækningum og geðlækningum, auk þess að hefja sérnám í fleiri greinum.
Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa sett á laggirnar allt að þriggja ára námsstöður í nokkrum sérgreinum. Læknar eiga þá kost á að fá hluta námsins metið og klára það sem eftir stendur erlendis. Þetta gildir þó ekki um Bandaríkin þar sem skipulag námsins er frábrugðið okkar. Í mörgum sérgreinum má taka tveggja til sex ára skipulagt sérnám að auki til að ljúka doktorsprófi.

Nám erlendis

Margir kjósa að nema læknisfræði erlendis af ýmsum ástæðum, svo sem auðveldari inntökuskilyrði (fleiri pláss í skólanum eða auðveldari próf), sérhæfðari menntun eða einfaldlega ævintýraþrá.  Margir horfa til Norðurlandanna, en þar er námsskipulagið svipað og á Íslandi, en vinsælustu löndin í dag eru þó Ungverjaland og Slóvakía og haldin eru inntökupróf fyrir þessa skóla á Íslandi ár hvert.  Þeir skólar sem flestir íslenskir læknar stunda grunnnám í eru:

Hvar mun ég svo starfa sem læknir?

Flestir læknar starfa á sjúkrahúsum, heilsugæslum eða einkastofum, en einnig er hægt að starfa við kennslu, rannsóknir og ýmis vísindastörf.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar