Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að leikstjórn.

Hvað gerir leikstjóri?

Leikstjórar leikstýra bæði eigin og annarra handritum og starfa hvort tveggja við gerð kvikmynda og leikverka sem eru sett upp í leikhúsum. Leikstjórar geta líka leikstýrt auglýsingum og þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Leikstjórar vinna náið með leikurum og sjá um að leiðbeina þeim, þjálfa tækni þeirra og persónusköpun. Leikstjórar vinna einnig náið með ljósahönnuðum, leikmyndahönnuðum, búningahönnuðum, dramatúrgum og danshöfundum. Leikstjórar skipuleggja æfingar og sjá um að stjórna þeim.

Hvernig veit ég hvort leikstjórn sé eitthvað fyrir mig?

Leikstjórar þurfa að hafa leiðtogahæfileika til þess að geta leiðbeint leikurum þess verks sem þeir leikstýra, hvort sem þeir eru einn eða fleiri. Þeir þurfa einnig að vera færir í mannlegum samskiptum og geta unnið náið með ólíkum einstaklingum. Leikstjórar þurfa að vera skapandi og hafa sterka sýn á því sem þeir gera. Aðrir kostir sem gott er að hafa eru skipulagshæfileikar, sjálfstæði og frumkvæði.

Hvar lærir maður að verða leikstjóri?

Á Íslandi getur þú lært að verða leikstjóri í Kvikmyndaskóla Íslands. Námið er á framhaldsskólastigi og hægt er að velja um tvær deildir; annars vegar leikstjórn/framleiðsla og hins vegar handrit/leikstjórn. Námið tekur tvö ár og lýkur með diplóma í leikstjórn og handritagerð eða leikstjórn og framleiðslu.

Margir leikstjórar kjósa að fara til útlanda í leikstjórnarnám á háskólastigi.  Dæmi um leikstjórnarskóla í nágrannalöndunum eru:

Margir leikstjórar eru ekki menntaðir í leikstjórn, heldur menntaðir í leiklist, handritsgerð eða kvikmyndatöku og nýta reynslu sína í leikstjórn og aðrir eru ekki menntaðir á þessu sviði en nýta annars konar reynslu.

Hvar mun ég svo starfa sem leikstjóri?

Leikstjórar geta í raun starfað á mörgum sviðum. Leikstjórar geta leikstýrt verkum í leikhúsum sem og kvikmyndum; hvort sem það eru verk annarra eða þeirra sjálfra. Þeir geta einnig  leikstýrt auglýsingum og þáttum í sjónvarpi og útvarpi. Staðir þar sem leikstjórar vinna eru meðal annars leikhús, kvikmyndafyrirtæki, sjónvarpsstöðvar, auglýsingastofur og útgáfufyrirtæki.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar