Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að ljósmyndaranum.

Hvað gerir ljósmyndari?

Ljósmyndari tekur ljósmyndir við ýmis tilefni og ýmsar aðstæður. Það fer eftir sérhæfingu ljósmyndara eða áhugasviði á hvaða sviði hann starfar og sömuleiðis eftir óskum viðskiptavina hans. Störf fréttaljósmyndara annars vegar og tískuljósmyndara hinsvegar eru til dæmis töluvert ólík; en svo geta verkefni líka verið ólík innbyrðis allt eftir óskum viðskiptavinarins. Ljósmyndarastarfið getur þess vegna verið afar fjölbreytt og skemmtilegt. Meðal verkefna ljósmyndara eru:

  • ljósmyndun fyrir blöð og tímarit
  • ljósmyndun fyrir einstaklinga, svo sem við ýmis tækifæri; brúðkaup, fermingar og fleira
  • vinna í ljósmyndaveri
  • taka myndir á vettvangi; t.d. fréttaljósmyndir og náttúruljósmyndir
  • ljósmyndun fyrir iðnað og auglýsingar
  • að setja upp sviðslýsingar fyrir myndatöku
  • að skrá upplýsingar við notkun myndefnis
  • að vinna ljósmyndir í myrkraherbergi

Tvenns konar myndatökutækni er notuð við ljósmyndun. Annars vegar stafræn ljósmyndun, þar sem ljósmyndari notar stafrænar myndavélar og tölvutækni, og hins vegar hefðbundin ljósmyndun sem byggir á efnavirkni og notaðar eru myndavélar með filmu. Ljósmyndun er löggilt iðngrein.

Hvernig veit ég hvort ljósmyndun sé eitthvað fyrir mig?

Hefur þú áhuga á ljósmyndun, myndavélum og tækni? Ertu með gott auga og næmur fyrir myndbyggingu? Hefurðu áhuga á að starfa í tískugeiranum, við fjölmiðla eða fyrir auglýsingastofur? Ertu skapandi og langar að vinna fjölbreytt starf? Þá er mjög líklegt að starf ljósmyndarans gæti hentað þér.

Ef þú ert ekki til í að hella þér út í dýrt og langt ljósmyndanám sem þú ert ekki viss um að henti þér, þá gætir þú skellt þér á ljósmyndanámskeið til að sjá hvort að þetta sé eitthvað sem þú hefur raunverulega áhuga á og ert góð(ur) í.

  • Ljósmyndaskólinn býður upp á alls kyns námskeið, svo sem grunnnámskeið, barnaljósmyndun, svart-hvíta filmuljósmyndun, snjallsímaljósmyndun og fleira.
  • Ljósmyndari.is býður upp á mislöng ljósmyndanámskeið, photoshop-námskeið og námskeið í myndvinnsluforritinu Lightroom.
  • Tækniskólinn býður upp á ljósmyndanámskeið og námskeið í Lightroom og Photoshop.
  • Ljósmyndarinn Pétur Thomsen býður upp á þriggja-kvölda námskeið, dagsnámskeið á Sólheimum og fleira.

Hvar lærir maður að verða ljósmyndari?

Á Íslandi er hægt að læra ljósmyndun í Tækniskólanum annars vegar og í Ljósmyndaskólanum  hinsvegar. Töluverður munur er á námi í þessum tveimur skólum.

Í Tækniskólanum þarftu að hafa lokið grunnnámi upplýsinga- og fjölmiðlagreina. Meginmarkmið námsins þar er að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til að annast alla helstu þætti sem við koma iðninni. Námstíminn er 3 ár að meðaltali, 4 annir í skóla og 48 vikur í starfsþjálfun. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til að starfa í iðninni og til inngögnu í nám til iðnmeistaraprófs.

Í Ljósmyndaskólanum þarftu að hafa lokið námi í framhaldsskóla eða sambærilegu námi og gerð er krafa um grundvallarþekkingu í ljósmyndun og tölvunotkun. Markmið skólans er að kenna ljósmyndun með sköpun að leiðarljósi. Námið er 5 annir og skiptist í fjölmarga áfanga, en lögð er jöfn áhersla á tæknilegar hliðar ljósmyndunar og sköpunar. Nemendum eru kynntar ýmsar leiðir í ljósmyndun, til dæmis portrett-, tísku-, landslags-, auglýsinga- , blaðaljósmyndun og síðast en ekki síst ljósmyndun sem list. Á síðustu önn námsins vinna nemendur að eigin verkefnum undir handleiðslu kennara og náminu lýkur svo með útskriftarsýningu.

Hvar mun ég svo starfa sem ljósmyndari?

Sem ljósmyndari getur þú starfað við fjölmiðla, á auglýsingastofum, á heildsölum, í ljósmyndastúdíói, í ljósmyndavöruverslunum og við tímarit. Einnig getur þú verið með eigin rekstur og starfað sjálfstætt.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar