Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að málaraiðn.

Hvað gerir málari?

Málarar mála hús að innan og utan, mála þök, spartla í veggi og sjá oft líka um háþrýstiþvott.  Málarar mála flestallar nýbyggingar sem reistar eru af byggingafyrirtækjum, mála fyrirtækjarými og margar fjölskyldur kjósa frekar að ráða fagmenn heldur en að mála sjálfar, enda getur það verið flókið verk ef vel á að takast.  Málarar mála einnig skip, mannvirki, innréttingar og húsgögn ásamt því að ráðleggja um litaval.  Þá mála þeir að auki skilti, auglýsingar og skreytingar, s.s. veggmyndir, kirkjuskreytingar, marmara- og viðarlíkingargerð með mismunandi verktækni ásamt skreytivinnu.  Málarar sjá líka um undirbúningsvinnu fyrir málun svo sem ryðhreinsun, burstun, sköfun, hreinsun með háþrýstiþvotti, brenna af málningu eða ná henni af með uppleysiefnum.

Hvernig veit ég hvort málaraiðnin sé eitthvað fyrir mig?

Málaraiðn gengur út á nákvæmni, vandvirkni og verkvit, auk þess að vera snöggur og duglegur starfskraftur.  Flestir hafa örugglega málað veggi heima hjá sér um ævina og tekist misvel til verka.  Ef að þú ert nákvæm(ur) og drífandi, með gott auga fyrir litum og smáatriðum, þá gæti málaraiðnin átt vel við þig.

Hvar lærir maður að verða málari?

Sveinspróf

Málaraiðn er löggild iðngrein.  Meðalnámstími til sveinsprófs er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina, samtals fjórar annir í skóla og 96 vikna starfsþjálfun. Meginmarkmið með námi í málaraiðn er að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til að takast á við alla algenga verkþætti iðngreinarinnar, allt frá mati á ástandi flatar og þar til æskilegri lokaáferð er náð. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs. Hægt er að stunda nám til sveinsprófs í eftirfarandi skólum:

Meistaranám

Meistaraskólinn er fyrir þá sem lokið hafa sveinsprófi í löggiltum iðngreinum. Í Meistaraskólanum fer fram nám í stjórnunar- og rekstrargreinum sem miðar að því að gera iðnmeistara hæfa til að sjá um kennslu nýliða og reka eigið fyrirtæki.  Markmið iðnmeistaranáms er að veita þeim sem lokið hafa sveinsprófi fræðslu og þjálfun til að stjórna verkum, kenna nýliðum fagleg vinnubrögð, öryggisreglur og iðnfræði.  Meistarar hljóta staðfestingu á námi sínu með meistarabréfi sem gefið er út af sýslumanni.  Námskrá meistaranáms málaraiðnar er að finna á vef Menntamálaráðuneytisins.

Eftirfarandi skólar bjóða upp á meistaranám í málaraiðn

Hvar mun ég svo starfa sem málari?

Málarar með sveinspróf starfa hjá málarameisturum, sem eru þeir sem eru með meistararéttindi í því fagi.  Málarar með sveins- eða meistarapróf starfa einnig hjá málningar- og byggingarvöruverslunum við ráðgjöf og litablöndun og hjá málningarverksmiðjum við vöruþróun, framleiðslu, blöndun lita og sölumennsku.

Hér er skemmtilegt myndband um eitt af þeim meira krefjandi verkefnum sem íslenskir húsamálarar hafa fengist við; risalistaverkið í Breiðholti:

Heimildir:

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar