Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. 

Hver er munurinn á sjúkraflutningum og bráðatækni?

Sjúkraflutningamönnum er kennd líffæra- og lífeðlisfræði, grunnlyfjafræði, fæðingarhjálp, öndunaraðstoð, grunnvirkni hjartans og notkun hálfsjálfvirkra hjartastuðtækja og fleira, auk réttra handbragða við flutning sjúklinga, björgun úr bílflökum og annað slíkt

Bráðatækni er framhaldsmenntun sjúkraflutningamanna. Bráðatæknar eru færir um að framkvæma mjög flóknar aðgerðir á borð við barkaþræðingar um nef, flóknar rafvendingar á hjarta og lyfjagjöf með mun fleiri lyfjum en almennir sjúkraflutningamenn.

Hvar lærir maður að verða sjúkraflutningamaður?

Sjúkraflutningaskólinn sér um menntun sjúkraflutningamanna á Íslandi og aðstoðar fólk við að komast í bráðatækninám erlendis.

Til að hefja nám í sjúkraflutningum þarf að:

  • Vera orðin/n 18 ára á því ári sem nám er hafið.
  • Hafa lokið amk. 60 einingum ( eða 100 F-einingum) úr viðurkenndum framhaldsskóla.
  • Hafa innan við tveggja ára gamalt skírteini í skyndihjálp.
  • Ekki er krafa um meirapróf (leigubílaréttindi) til að hefja nám í sjúkraflutningaskólanum.

Sjúkraflutningamaður EMT er grunnmenntaður sjúkraflutningamaður með starfsleyfi til að vinna með fullmenntuðum sjúkraflutningamanni (EMTAdvanced) eða bráðatækni (Paramedic).  Grunnmenntun er 260 tíma nám (ca. 5-7 vikur), þar sem fer fram bóklegt nám á netinu, verklegar lotur, 15 dagar samtals og ca. 60 tímar í starfsþjálfun.

Fullmenntaður sjúkraflutningamaður EMT Advanced er síðan 390 tíma framhaldsnám sem fer fram í lotum á næstu 3-4 árum eftir grunnnám og veitir aukin réttindi.

Hvar lærir maður að verða bráðatæknir?

Bráðatæknir (Paramedic) er árs diplomanám til viðbótar sem veitir enn aukin réttindi til lyfjagjafa og inngripa

Til að hefja nám í bráðatækni (paramedic) þarf að hafa grunnmenntun sjúkraflutninga (EMT).  Ekki er nauðsynlegt að hafa klárað framhaldsnámið (EMT Advanced) til að hefja nám í bráðatækni en það er auðvitað æskilegt. Grunnámið er eingöngu kennt á vorönn í fjarnámi með verklegum lotum. Hægt að taka þær í Reykjavík, Sandgerði, á Akureyri og Reyðarfirði, auk sérnámskeiða ef með þarf.

Bráðatækninám er því miður ekki kennt á Íslandi enn sem komið er, en það er þó í skoðun og eru vonir bundnar um að það verði fljótlega í boði, þá sem diplómanám á háskólastigi og í tengslum við nám hjúkrunarfræðinga.

Flestir bráðatæknar á Íslandi hafa lært í Bandaríkjunum og flestir við tvo skóla, annars vegar í Pittsburgh (flestir frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðis hafa farið þangað) og hins vegar í skóla nálægt Boston þar sem taka má bóklega hluta námsins í fjarnámi, (margir frá HSU, Slökkviliði Akureyrar, Brunavörnum Suðurnesja og víðar hafa sótt þennan skóla). Hann hlaut nýlega viðurkenningu fyrir framsækni í skólastarfi.   Báðir skólarnir eru mjög framarlega á sínu sviði.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar