Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að smiðnum.
Hvað gerir smiður?
Smiðir vinna afar fjölbreytt starf en segja má að þeir smíði nánast allt sem smíða má úr tré. Smiðir vinna til dæmis á trésmíðaverkstæðum, við smíði nýrrabygginga, við viðhald og breytingar á gömlum byggingum og gerð brúa og virkjana. Meðal þess sem smiðir starfa við er þetta:
- Vinna eftir teikningum arkitekta, verkfræðinga og viðurkenndra hönnuða
- Smíða steypumót fyrir byggingar
- Smíða vinnupalla
- Klæða og einangra hús
- Klæða gólf, til dæmis leggja parket
- Smíða og setja upp innréttingar
- Greina og gera við fúaskemmdir
- Þekkja húsafriðunarlögin og byggingasögulegt gildi þeirra
- Vinna við breytingar á húsum, til dæmis stækkanir
- Vinna við gerð stórra mannvirkja eins og til dæmis virkjanna
Hvernig veit ég hvort smíði sé eitthvað fyrir mig?
Ert þú handlaginn og langar að nýta þá færni í starfi? Ef svo er þá gæti smíði hentað þér vel. Smiðir þurfa að hafa gott verkvit, geta unnið eftir teikningum og leiðbeiningum hönnuða og verkfræðinga og geta unnið við fjölbreytt verkefni og í ólíkum aðstæðum.
Hvar lærir maður að verða smiður?
Húsasmíði er löggilt iðngrein og meginmarkmið námsins er að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til þess að sinna smíðavinnu í bygginga- og mannvirkjaiðnaði. Meðalnámstími húsasmíði er fjögur ár, fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Námi líkur með sveinsprófi sem veitir réttindi til þess að starfa við greinina og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs. Þeir skólar sem kenna húsasmíði á Íslandi eru:
- Fjölbraut í Breiðholti
- Fjölbrautaskóli Norðurlands Vestra
- Fjölbrautaskóli Suðurlands
- Fjölbrautaskóli Suðurnesja
- Fjölbrautaskóli Vesturlands
- Menntaskólinn á Ísafirði
- Tækniskólinn
- Verkmenntaskólinn á Akureyri
- Verkmenntaskóli Austurlands
Hvar mun ég svo starfa sem smiður?
Sem smiður getur þú starfað á ýmsum stöðum. Meðal þeirra staða sem smiðir starfa á eru byggingafyrirtæki, trésmíðaverkstæði, hjá húsasmíðameisturum, sem söluráðgjafar í byggingavöruverslunum og í stjórnunarstörfum á byggingavinnustöðum. Margir smiðir starfa einnig sjálfstætt og reka eigið fyrirtæki.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?