Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að tæknifræðingum.
Hvað gerir tæknifræðingur?
Störf tæknifræðinga eru fjölbreytt og fara að miklu leyti eftir sérhæfingu hvers og eins. Þú getur til dæmis orðið byggingartæknifræðingur, rafmagnstæknifræðingur, iðnaðartæknifræðingur eða vél- og orkutæknifræðingur. Tæknifræðingar starfa meðal annars við þróun lausna við byggingaframkvæmdir, hönnun mannvirkja, rafeindakerfa eða véla. Hér eru nokkur dæmi um það sem tæknifræðingar gera:
- Hanna mannvirki eins og til dæmis jarðvarmavirkjanir og rafeinda- og fjarskiptakerfi.
- Ráðgjöf í framleiðslufyrirtækjum.
- Framkvæmdastýring, áætlanagerð, verkefna- og gæðastjórnun.
- Hönnun og uppsetning véla.
Hvernig veit ég hvort tæknifræði sé eitthvað fyrir mig?
Tæknifræðingar þurfa að hafa áhuga á tækni og tæknilegum úrlausnum verkefna. Þeir þurfa einnig að hafa hæfni til að takast á við og leysa flókin og krefjandi vandamál og geta hannað verkferla. Ef þú hefur áhuga á þessu og ert auk þess nákvæm(ur) og skipulögð/-lagður er vel hugsandi að tæknifræðin henti þér. Auk þess þurfa tæknifræðingar að eiga auðvelt með að taka ákvarðanir, stjórna verkefnum og taka ábyrgð.
Hvar lærir maður að verða tæknifræðingur?
Tæknifræðingur er lögverndað starfsheiti. Til þess að öðlast löggildingu og þau starfsréttindi sem því fylgja þarf að hafa lokið þriggja til fjögurra ára háskólanámi. Námið er einnig góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám, til dæmis í verkfræði. Tveir skólar á Íslandi bjóða upp á nám í tæknifræði:
Hvar mun ég svo starfa sem tæknifræðingur?
Tæknifræðingar starfa á ýmsum sviðum atvinnulífsins og eins og fram kemur hér að ofan fer það að einhverju leyti eftir sérhæfingu hvers og eins hvar viðkomandi starfar. Tæknifræðingar starfa til að mynda á verkfræði- og ráðgjafastofum, í sjávarútvegi, í tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum og fjármála- og fjarskiptafyrirtækjum.
Heimildir:
Næsta skref
Tæknifræðingafélag Íslands
Háskólinn í Reykjavík
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?