Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. 

Hvað gerir arkitekt?

Arkitektúr er mjög fjölbreytt fræðigrein, arkitektar veita ráðgjöf hvort sem er tæknilega, fagurfræðilega eða hönnunarlega séð. Einnig er hægt að sérhæfa sig sem innanhúsarkitekt en fyrst þarf að fara í gegnum grunn að almennri arkitekt. 

Arkitektar sinna meðal annars:
• Hönnun og gera uppdrátt að mannvirkjum og skipulagi svæða. 
• Mati á kostnaði og verktíma
• Hönnun innréttinga og frágang innanhúss
• Eftirfylgni verkefna á byggingartíma
• Leita tilboða og annast samningagerð
• Útfærslu og leggja gögn fyrir byggingar- og skipulagsnefndir 

Arkitektar eru í nánu samstarfi við aðra arkitekta, verkfræðinga og verkkaupa til þess að vera viss að allt sé á réttri leið og að allt gangi vel. Það er mjög gott að hafa gott ímyndunarafl í þessu starfi þar sem maður er aðallega að vinna inná Arkitektastofu og að teikna byggingar. Ef það er verið að byggja byggingu eftir einhvern arkitekt þá er sá arkitekt oftast á byggingarsvæðum til þess að fylgjast með verkum sínum. 

Hvernig verð ég arkitekt á Íslandi?

Listaháskóli Íslands býður uppá þriggja ára BA nám í arkitektúr. Þar eiga nemendur í virku samtali við sérfræðinga í öðrum faggreinum sem móta síðan nemendurna og hefur áhrif á listastíl og lokaútkomu þeirra í náminu.

Námið fer að stærstum hluta fram í vinnustofum og er áhersla lögð á að nemendur fái traustan grunn til framhaldsnáms í gegnum fjölbreytt verkefnaval. Sumir sækja einnig um í skiptinám á öðru ári erlendis.

Námið er í 3 ár, eða 6 annir, og leiðir til BA-gráðu án starfsréttinda. Til að öðlast lögbundin starfsréttindi þarf að ljúka meistaragráðu frá viðurkenndum háskóla, en það tekur að öllu jöfnu 2 ár. LHÍ hefur nýlega hafið kennslu á meistaragráðu í arkitektúr á Íslandi en margir kjósa hinsvegar að sækja námið erlendis, en þar er einnig hægt að taka allt námið.

Þeir sem sækja um nám í BA þurfa að vera búin að undirbúa verkefnamöppu. Verkefnamappan, eða portfolio, inniheldur ýmis verkefni sem umsækjandi sendir með í umsókn sinni um skólavist. Dómarar skoða allar umsóknir og allar möppur og velja þær sem þeim lýst best á og bjóða í viðtal.

Æskilegt getur verið að hefja ferlið á að sækja námskeið í t.d. Myndlistarskólanum í Reykjavík, til að safna upp flott verkefni sem geta reynst vel í verkefnamöppuna. Einnig hafa sumir kosið að sækja árs fornám eftir menntaskóla í Myndlistarskólanum eða Tækniskólanum og/eða fara til Evrópu í Lýðháskóla.

Heimildir:
Arkitektafélag Íslands
Listaháskóli Íslands

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar