Í grunninn eru til tvenns konar bankareikningar

Þeir eru tékkareikningar (eða veltureikningar) og sparireikningar. Þó eru til mismunandi gerðir af sparireikningum. Bankar bjóða einnig oft upp á mismunandi tékkareikninga, þó svo að hugmyndin á bakvið þá sé ávallt sú sama.

Hvað eru tékkareikningar?

Tékkareikningar eru algengustu reikningarnir sem notaðir eru af einstaklingum. Hægt er að millifæra af og á tékkareikninga t.d. laun, greiðslur og kaup á vöru og þjónustu. Debetkort og ávísanahefti eru gefin út á tékkareikninga. Innistæður tékkareikninga eru ætíð lausar til útborgunar og því eru vextir lægri en á sparireikningum. Allir 12 ára og eldri geta opnað tékkareikning. Einstaklingar 18 ára og eldri geta sótt um yfirdrátt á tékkareikninga.

Hvað eru lokaðir sparireikningar?

Lokaðir sparireikningar er ein leið í sparnaði þar sem einstaklingur leggur inn ákveðna upphæð og bindur hana þar til lengri tíma. Slíkir reikningar bera hærri ávöxtun en t.a.m. tékkareikningar. Slíkir reikningar geta verið lokaðir allt frá nokkrum dögum og vikum upp í nokkur ár. Vextirnir eru yfirleitt hærri því lengur sem reikningurinn er lokaður. Ekki eru gefin út debetkort á sparisjóðsreikninga.

Verðtryggðir eða óverðtryggðir sparireikningar?

Erfitt er að segja til um hvort verðtrygging henti betur eða verr þegar kemur að sparnaði. Þumalputtareglan er þó sú að ef fólk hyggst spara til lengri tíma (þ.e. nota reikning sem er lokaður í nokkur ár) þá er verðtryggingin betri kostur. Með henni er hægt að tryggja að verðgildi peninganna haldist hið sama. Það er, að fólk geti keypt jafnmörg epli fyrir peninginn þegar það tekur hann út og þegar það lagði hann inn. Sé hinsvegar verið að spara til styttri tíma eða byggja upp varasjóð er ekki víst að verðtryggingin sé endilega betri kostur.

Verðbréfasjóðir

Verðbréfasjóðir eru svo önnur tegund sparireikninga. Tæknilega séð eru sjóðir ekki reikningar heldur einskonar púkk sem margir einstaklingar leggja í. Starfsmenn bankanna nota síðan þessa peninga sem safnast saman til að fjárfesta og reyna þannig að ávaxta þá. Því eru engir fastir vextir í verðbréfasjóðum heldur veltur ávöxtunin á því hversu vel sjóðnum er stýrt. Peningar einstaklinga í sjóðum geta því ávaxtast vel eða hreinlega tapast að hluta til sé ávöxtunin neikvæð.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar