Hvað er afsláttarkort vegna heilbrigðisþjónustu?
Afsláttarkortin veita aukna niðurgreiðslu á læknisþjónustu. Fólk sem hefur varið ákveðinni upphæð í læknisheimsóknir og heilbrigðisþjónustu á rétt á að sækja um afsláttarkortin.
Hverjir eiga rétt á afsláttarkortinu?
Allir sem eru sjúkratryggðir (þ.e. hafa átt lögheimili á Íslandi í 6 mánuði eða lengur) eiga rétt á aflsáttarkorti. Þó þarf að greiða ákveðna upphæð fyrir læknisþjónustu áður en kortið er gefið út.
- 18 til 66 ára þurfa að hafa greitt 31.100 krónur samtals á árinu til að eiga rétt á afsláttarkorti.
- 18 ára og yngri þurfa að hafa greitt 9.400 krónur samtals á árinu til að eiga rétt á afsláttarkorti.
- Öryrkjar og 70 ára og eldri þurfa að hafa greitt 7.800 krónur samtals á árinu til að eiga rétt á afsláttarkorti.
Hvernig er sótt um afsláttarkort?
Á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands er hægt að sækja um afsláttarkort eftir að tilskilinni upphæð er náð. Í flestum tilfellum þarf ekki að framvísa kvittunum fyrir læknisþjónustu því þær eru sjálfkrafa sendar til SÍ. Gott er þó að halda öllum lækniskvittunum til haga til öryggis, hafi þær ekki verið sendar inn sjálfkrafa.
Hvaða greiðslur gilda upp í afsláttarkort?
Flest allar heimsóknir til lækna, á spítala og á heilsugæslustöðvar gilda upp í afsláttarkort, eins og sjá má hér að neðan. Kostnaður vegna lyfja, þjálfunar og tannlækninga gildir ekki upp í afsláttarkort. Kostnaður við eftirfarandi heilbrigðisþjónustu telur upp í afsláttarkortið:
- Komur á heilsugæslustöð, bráðamóttöku, slysadeild og göngudeild.
- Komur til heimilislækna og sérfræðinga utan sjúkrahúss.
- Rannsóknir á rannsóknastofum.
- Geisla- og myndgreiningar.
- Sérfræðiviðtöl hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Hversu mikinn afslátt veitir afsláttarkortið?
Afsláttarkortið veitir ekki afslátt í ákveðnum prósentum heldur fer afslátturinn eftir því hvernig þjónusta er sótt. Til að mynda greiðir 20 ára einstaklingur 1000 krónur fyrir komu á heilsugæslustöð, en sé hann korthafi greiðir hann 580 krónur. Komugjald á bráðamóttöku er 5.600 krónur en fyrir korthafa er það 3.000 krónur.
Hvar er hægt að nálgast afsláttarkortið?
Afsláttarkortin eru ekki lengur gefin út í formi korts. Afláttarkortið er orðið rafrænt og má nálgast á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.
Ef fólk hefur greitt umfram þá upphæð sem gildir upp í afsláttarkortið er hún ekki niðurgreidd nema að hluta. Því borgar sig að fá sér kortið um leið og upphæðinni er náð.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?