Þessi grein skiptist í eftirfarandi þætti:
  1. Bólusetningar – því lifrarbólga er slæmur ferðafélagi
  2. Sjúkrataskan – besti vinur ferðalangsins
  3. Illt í maganum?
  4. Malaría
  5. Hreint vatn og matur – Ekki drekka drullupoll
  6. Öryggið á oddinn, ef hitnar í kolum og kippir í kynið
  7. Sjúkratryggingar eru nauðsynlegar fyrir ferðalög erlendis
  8. Nokkur atriði til viðbótar

1. Bólusetningar – Því lifrarbólga er slæmur ferðafélagi

Þegar ferðast er til fjarlægra landa þarf oft að huga að bólusetningum. Í sumum löndum eru landlægir sjúkdómar sem finnast ekki á Íslandi og íslensk börn eru því ekki bólusett gegn. Best er að byrja á því að fullvissa sig um það að hafa fengið allar barnabólusetningarnar. Það má gera hjá heimilislækninum þínum eða á island.is. Síðan þarf að komast að því hvaða bólusetningar eru skynsamlegar fyrir áfangastaðinn. Loks þarf að panta tíma í bólusetningu á næstu heilsugæslustöð með nægum fyrirvara. Passaðu þig að huga snemma að bólusetningu, því oft þarf að líða langur tími milli bólusetningar og ferðalags! Dæmi um bólusetningar sem er algengt að ferðalangar þurfi er lifrarbólga A og B, taugaveiki, japönsk heilabólga og endurnýjun á stífkrampa.

 

  • Heilsugæslan Ferðavernd sérhæfir sig í bólusetningum og ráðgjöf til ferðamanna.

 

Pro-tip: heilsugæslan þín getur gefið út bólusetningakort. Það getur verið gott að hafa það meðferðis ef þú þarft að fara á spítala eða heilsugæslu erlendis.

 

2. Sjúkrataskan – besti vinur ferðalangsins

Allir ættu að venja sig á það að taka með sér litla og handhæga súkratösku í bakpokann, með helstu sjúkragögnum og lyfjum. Einnig ættu allir að sækja skyndihjálparnámskeið, t.d. hjá Rauða krossinum.

Sjúkrataska ferðalangsins ætti að innihalda:

  • Sáragrisjur
  • Plástra í nokkrum stærðum og gerðum
  • Hreinsi- og sótthreinsiklúta
  • Skæri og flísatöng
  • Heftiplástur
  • Neyðarteppi
  • Teygjubindi
  • Einnota hanska
  • Öryggisnælur
  • Brunakrem eða kælisprey
  • Verkjalyf, niðurgangslyf og önnur lyf eftir þörfum; t.d. astmalyf og ofnæmislyf.
  • Adrenalínpenna ef ferðast er með manneskju með bráðaofnæmi.

Kaupa má góðar sjúkratöskur í apótekum og hjá ýmsum fleiri aðilum

Pro-tip: Æfðu þig í að nota sjúkragögn og fylltu reglulega á sjúkratöskuna. 

3. Illt í maganum?

Magakveisa er algengur fylgifiskur ferðalaga. Það geta verið þrjár ástæður fyrir því að þú fáir magakveisu á ferðalögum; nýtt mataræði, ný bakteríuflóra eða matareitrun:
  • Nýtt mataræði. Stundum fær maður tímabundið illt í magann einfaldlega vegna þess að maður borðar mat sem maður er óvanur. Það er mjög eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Yfirleitt venst maður framandi mat hratt og óþægindin hverfa. Ef óþægindin eru sérlega mikil eða langvarandi, skaltu einfaldlega finna þér eitthvað annað að borða.
  • Ný bakteríuflóra. Á hverju heimssvæði er það sem kallast “einkennisflóra,” en það er samansafn bakteríutegunda sem finnst í mat og flestir á því landsvæði hafa í meltingarvegi sínum. Slíkar bakteríur eru ekki hættulegar. Það segir sig sjálft að bakteríuflóran á Íslandi er allt önnur en á Indlandi. Þegar maður ferðast til nýrra svæða kemst maður í snertingu við bakteríutegundir þess svæðis. Þær eru yfirleitt hættulausar, en líkaminn þinn er óvanur þeim og þarf því nokkurn tíma til að venjast þeim. Á meðan hann er að venjast þeim getur þér liðið illa, þú færð niðurgang og kastar upp, en á endanum venst líkaminn nýju bakteríunum. Næstum því allir sem ferðast til fjarlægra landa upplifa þessi veikindi, en það er ekkert að óttast, því slík veikindi eru hættulaus og líða hjá, þó þau séu óþægileg. Oft ruglar fólk þessum veikindum saman við matareitrun. Leitaðu læknis ef veikindin verða mjög slæm eða þrálát.
  • Matareitrun er alvarleg sýking í meltingarvegi, sem getur orsakast af mörgum mismunandi bakteríum, veirum, eitrum eða sníkjudýrum. Dæmi um slíka pest eru Salmonella, Staphylokokkar, bótúlíneitur, rótaveiran, þráðormar og E. Coli. Við matareitrun þarf yfirleitt að taka lyf. Einkenni matareitrunnar eru oftast þrálátur niðurgangur, krampar og uppköst. Stundum fylgir sótthiti. Ef þig grunar að þú sért með matareitrun skaltu leita læknis strax.

Hreinsaðu hendur og áhöld ávallt vel og borðaðu mat sem þú ert vön/vanur til að forðast magakveisur.

Pro-tip: Sniðugt er að taka með sér niðurgangslyf á borð við Imodium, sem stoppa niðurgangurinn ef hann er orðinn fullmikill fyrir þinn smekk. Reynið samt að nota þau ekki um of, og ekki nema í slæmum tilfellum. Það er betra fyrir líkamann að geta skilað af sér ef aðstæður leyfa. Sjá lyfseðil fyrir Imodium.

4. Malaría

Malaría (eða mýrarkalda) hefur drepið fleiri jarðarbúa en nokkur annar sjúkdómur. Hún smitast með moskítóflugum og er landlægt vandamál í mörgum hitabeltislöndum. Það er því ekki vitlaust að verja sig gegn malaríu ef ferðast á til hitabeltisins. Engin bólusetning er til gegn malaríu og því ferðast margir með malaríulyf til að bregðast við smiti. Talaðu við heimilislækninn þinn eða lyfjafræðinginn í næsta apóteki til þess að fá malaríulyf. Gakktu með flugnafælu og flugnanet á malaríusvæðum.
  • Ertu ekki viss hvort þú sért að fara á malaríusvæði? CDC kortið gæti hjálpað.
Pro-tip: Í tóniki er bragðefnið quinin, sem er malaríulyf. Þess vegna segja margir að maður eigi að drekka mikið af tóniki til að forðast malaríu. Þetta húsráð er því miður bull, því það er of lítið af quinini í tóniki til að hafa áhrif.

5. Hreint vatn og matur – Ekki drekka drullupoll

Passaðu þig að borða helst mat sem er innpakkaður. Ekki borða á veitingastöðum sem eru subbulegir og óhreinir. Þetta segir sig sjálft. Margir sjúkdómar berast með vatni og því er gott að venja sig á að drekka vatn sem hefur verið sérstaklega hreinsað og selt í flöskum. Ef þú hefur ekki aðgang að hreinu vatni, reyndu þá allavega að sjóða vatnið áður en þú drekkur það.
Pro-tip: Láttu götumat bara eiga sig.

6. Öryggið á oddin, ef hitnar í kolum og kippir í kynið

Ekki stunda óvarið kynlíf. Þessi vísa er aldrei of oft kveðin. Langsniðugast er að sleppa öllum skyndikynnum og óábyrgu kynlífi á ferðalögum, en við höfum öll kynhvöt og maður veit aldrei hvenær maður lendir á séns og leyfir dýrinu að leika lausum hala. Þess vegna skaltu taka með þér smokk hvort sem þú ert kona eða karl. Það er leiðinlegt að koma heim úr reisunni með kynsjúkdóm eða alþjóðlega óléttu.
Pro-tip: Láttu rauðu hverfin bara eiga sig.

7. Sjúkratryggingar eru nauðsynlegar fyrir ferðalög erlendis

Of margir fara af landinu án trygginga fyrir því tjóni sem orðið getur í útlöndum. Ekki vera sá einstaklingur. Almennar tryggingar tryggja þig yfirleitt ekki fyrir tjóni sem þú getur lent í þegar þú ert ekki á landinu. Því skaltu ekki halda af landi brott án viðunandi ferðatrygginga.
Æskilegt er að ferðatrygging taki til alls hugsanlegs tjóns sem mögulega getur komið upp erlendis s.s. lækniskostnaðar, sjúkraflutnings heim, heimferðar vegna alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, bætur vegna þjófnaðar og líkamsárásar, svo eitthvað sé nefnt.
Ef ætlunin er að taka þátt í áhættusömum athöfnum erlendis á borð við teygjustökk, fljótasiglingar og annað þess háttar er ráðlagt að kanna sérstaklega hvort ferðatrygging taki til hugsanlegs tjóns af völdum þeirra.
Tvö sjúkratryggingakort eru gagnleg á ferðalögum:
  • Evrópska sjúkratrygginakortið gildir fyrir flestan sjúkrakostnað þegar ferðast er í Evrópu. Það kostar ekkert og hægt er að sækja um það á síðu Sjúkratrygginga Íslands. Þú getur meira að segja náð í app sem virkar eins og kortið!
  • SOS International sjúkratryggingakortið gildir um nær allan heim fyrir öllum helsta sjúkrakostnaði. SOS-kortið fylgir mörgum heimilistryggingum, og ef þú eða foreldrar þínir eru með slíka tryggingu skaltu spyrja um SOS-kortið. SOS-kortið fylgir einnig með mörgum kreditkortum, þannig að ef þú ert að sækja um kreditkort, spurðu þá hvort SOS-kortið fylgi með.
Pro-tip: Kannaðu ferðatrygggingar á kreditkortum.

8. Nokkur atriði til viðbótar:

  • Notið sólarvörn! Það er glatað að eyða fríinu brunninn með kalda bakstra á húðinni.
  • Látið dýr einfaldlega eiga sig. Þau bera sjúkdóma og sum eru beinlínis hættuleg.
  • Notið belti í bílum, hjálma á vespum o.s.fr. Umferðaröryggið er mikilvægt erlendis sem hérlendis.
  • Ekki þiggja áfengi í opnum umbúðum frá ókunnugum.
  • Látíð vímuefni eiga sig.
  • Umfram allt, verið skynsöm!
Þessi grein er að einhverju leiti byggð á síðunni Fit for Travel, sem Áttavitinn mælir með.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar