Í dag er varla talað um annað en Covid-19, veiruna sem hefur dreift sér um allan heim með miklum hraða. Eftir að veiran fór að dreifa sér um allan heim höfum við heyrt um lítið annað en sóttkví og þá sérstaklega við heimkomu. Sóttkví vegna Covid-19 eru 14 dagar.
Sóttkví er til þess að takmarka þær smitleiðir sem fylgja veirum eða sýklum, t.d. hósta, hnerra eða snertismit. Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms.
Þarf ég að fara í sóttkví?
Þú ferð í sóttkví ef þú hefur :
- Umgengst einhvern sem reyndist smitaður.
- Einhver á heimilinu þínu fer í sóttkví og þú getur ekki farið af heimilinu.
- Þú kemur frá áhættusvæðum erlendis.
Í dag fá flestir SMS um leið og þeir koma til landsins eða hafa umgengst einhvern smitaðann upplýsingar um boð í skimum og sóttkví.
Það sem hafa þarf í huga þegar kemur að sóttkví
Þegar maður er settur í sóttkví á að halda sig innanhúss og takmarka þau skipti sem maður fer út. Þetta gerir það að verkum að maður getur ekki farið í skólann, vinnuna, ræktina, bíó o.þ.h. Allt sem maður gerir fyrir utan heimili sem inniheldur mannleg samskipti í minna en 2 metra fjarlægð er ekki í boði næstu 14 daga.
Að halda rútínu í sóttkví
Til þess að drepast ekki úr leiðindum er mikilvægt að halda rútinu. Það er sniðugt að búa sér til rútínu sem hentar sóttkvínni, t.d. fara í sturtu á sama tíma á hverjum degi eða læra/vinna alltaf í X marga tíma. Það getur verið gott að skrifa dagbók til að halda utan um það sem maður er/var að gera í sóttkvínni. Það getur nefnilega verið gaman að lesa dagbókina seinna þegar maður er laus úr sóttkvínni.
Að nýta sér sóttkvína
Í sóttkví er tilvalið að nýta sér þessa breytingu á daglegri rútínu. Þegar maður neyðist til að breyta um rútínu er góð hugmynd að nýta sér breytinguna til þess að koma nýjum hlutum inn, heilsusamlegri hlutum. Það þarf ekki að vera flókið, þú getur einfaldlega byrjað á því að taka lýsi á hverjum morgni. Farið í 30 mínútna göngutúr á hverjum degi og svo síðast en ekki síst farið að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma líka.
Hreyfing og næring í sóttkví
Það getur verið mikið sjokk að þurfa að fara í sóttkví, maður getur verið stressaður og leiður því maður getur ekki hitt vini sína og í mörgum tilfellum ekki sinnt áhugamálum sínum. Hreyfing er eitt besta meðalið sem við höfum við streitu og kvíða og svo hafa ótrúlega margar rannsóknir sýnt að hreyfing hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfið.
Hreyfing bætir einbeitingu og svefn og minnkar stress í leiðinni. Það besta við þetta er að þú þarft ekki nema 30 mínútna röskan göngutúr til að líða betur. Það að fara í göngutúr er ekki eini valkosturinn, þú gætir t.d. farið út að leika við hundinn þinn (ef þú átt hund þ.e.a.s.), þú gætir farið að hlaupa í tröppum og til þess að brjóta hlutina upp er oft skemmtilegt að labba eða keyra á áhugaverða staði sem þú hefur ekki verið mikið á áður (t.d. Heiðmörk). Ef þú nennir ekki út er til endalaust af ókeypis æfingaöppum. Í þessum öppum velurðu einfaldlega erfiðleikastig og hvaða líkamshluta þú vilt æfa. Þegar maður er mestallan hluta dagsins inni í sama herbergi og hefur ekki aðgang að eldhúsi er það freistandi að lifa á núðlum og Nocco eða panta pítsu í öll mál. Það er mikilvægt að nærast vel til þess að halda sér við og til að stuðla að góðri geðheilsu líka. Það er sniðugt að biðja foreldra sína um að undirbúa hádegismat fyrir sig á meðan þau eru í vinnunni og fá þau til að kaupa næringarríkan mat í millimál. Reyndu að borða vel, þá mun þér líða betur.
Nú er ég ekki að biðja neinn um að breytast í hermann, maður verður að leyfa sér, en þessi grein mun vonandi stuðla að fljótlegri, heilsusamlegri og skemtilegri sóttkví.
Meiri upplýsingar um COVID-19 og sóttkví getur þú fundið með því að smella hér.
Höfundur: Ólíver Dór Örvarsson
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?