Munurinn á lífrænni og vistvænni ræktun er sá að í lífrænni ræktun er bannað að nota tilbúinn áburð eða úða eiturefnum, s.s. skordýraeitri og varnarefnum, en vistvæn ræktun er venjulegur búskapur með miklu gæðaeftirliti. Þar má nota áburð og eitur, en í hófi.
Hvað er lífræn ræktun?
Alþjóðlegar reglur gilda um lífræna ræktun og sjálfstæðir eftirlitsaðilar votta framleiðendur á því sviði. Við lífræna ræktun má aðeins nota lífrænan áburð, t.d. búfjáráburð, þangmjöl, steinmjöl, kalk og beinamjöl. Þá eru sáðskipti stunduð, en það er ferlið þegar einhver tegund jurtar er ræktuð á reit í einhvern tíma, en akurinn svo plægður og nýrri jurt sáð. Þá er líka hægt að hvíla reitinn í einhvern tíma. Við lífræna ræktun má ekki nota eiturefni og ennfremur má ekki nota erfðabreyttar lífverur. Við búfjárræktun verður fóður dýranna að vera lífrænt og ekki má nota hormóna.
Til að mega markaðssetja lífrænar afurðir verður framleiðandinn að fá vottun frá faggildri vottunarstofu sem hefur eftirlit með starfseminni. Á Íslandi er aðeins ein slík vottunarstofa; Vottunarstofan Tún. Ef að varan er merkt með merki frá Vottunarstofunni Túni getur neytandinn verið viss um að varan sé lífræn og framleidd samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Vörur verða að innihalda 90% lífræn efni eða meira til að teljast lífræn.
Hvað er vistvæn ræktun?
Þeir sem stunda vistvæna ræktun mega nota tilbúinn áburð, fyrirbyggjandi lyf og varnarefni, innan tiltekinna marka. Gæðaeftirlit, vottun og vörumerki eru í umsjá búnaðarsambanda. Tryggja skal öflun góðs neysluvatns, örugga meðferð sorps og frárennslis svo og aðrar mengunarvarnir og góða umhirðu við framleiðslu landbúnaðarafurða. Vistvæn ræktun er venjuleg ræktun sem hefur uppfyllt ákveðinn gæðastaðal hvað varðar öryggi og hreinleika, en er ekki með eins strangar kröfur og lífræn ræktun.
Er lífrænt grænmeti hollara en annað grænmeti?
Næringargildið er ekkert endilega meira eða betra í lífrænu grænmeti en í því venjulega en hins vegar inniheldur grænmetið minna af eiturefnum, enda notkun slíkra efna bönnuð við lífræna ræktun. Ennfremur inniheldur lífrænt ræktað grænmeti minna nítrat heldur en það venjulega, en tilbúinn áburður er yfirleitt samsettur úr nítrati og fleiri efnum.
Lífrænt ræktað grænmeti er aðallega hollara fyrir Móður Náttúru sjálfa, enda framleiðslan miklu umhverfisvænni.
Heimildir:
- Grein á Vísindavefnum
- Efni um lífræna ræktun
- Grein í Morgunblaðinu
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?