Hvað er keiluskurður?

Keiluskurður er einföld skurðaðgerð sem felst í því að neðsti hluti leghálsins er skorinn burtu.

Hvers vegna fara konur í keiluskurð?

Allt fólk með legháls (t.d. konur og sumir trans einstaklingar) er hvatt til að fara í leghálsskoðun reglulega. Ef að krabbameinsleitin gefur til kynna að frumubreytingar eigi sér stað er mikilvægt að framkvæma keiluskurð til að koma í veg fyrir frekari frumubreytingar.

Keiluskurður er gerður ef leghálsspeglun með vefjasýnatöku staðfestir að frumubreytingar hafi átt sér stað. Frumubreytingarnar eru yfirleitt að völdum HPV-veira.

Hvernig fer keiluskurður fram?

Keiluskurður er framkvæmdur þannig að skorið er úr leghálsinum.

Keiluskurð er best að gera rétt eftir að tíðablæðingar hafa átt sér stað. Konan mætir í aðgerðina að morgni og fer heim síðdegis sama dag. Aðgerðin er gerð í svæfingu í gegnum leggöng og tekur um 15 til 20 mínútur. Neðsti hluti leghálsins er skorinn burtu, oftast með rafskurði og í um 95% tilfella hverfa forstigs frumubreytingar alveg. Nauðsynlegt er að mæta í langtímaeftirlit eftir aðgerð, vegna hættu á endurteknum forstigsbreytingum.

Hvar er keiluskurður framkvæmdur?

Keiluskurður er framkvæmdur á spítölum.  Eftirfarandi spítalar framkvæma keiluskurð:

  • Kvennadeild Landspítalans. Sími þar er: 543-3270.
  • Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sími þar er: 463-0100.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Sími þar er: 422-0500.
  • Sjúkrahúsinu á Akranesi. Sími þar er: 430-6000.

Þú færð vafalaust upplýsingar um hvert er best að fara eftir að þú hefur farið í leghálsskoðun sem hefur gefið til kynna að frumubreytingar eigi sér stað.

Hvernig undirbýr maður sig fyrir keiluskurð?

Farið er í undirbúningsviðtal hjá lækni og hjúkrunarfræðingi, þar sem nánari upplýsingar eru veittar um aðgerð og eftirfylgni. Viðtalið getur tekið 2-3 klukkustundir.

Hvaða aukaverkanir geta fylgt keiluskurðsaðgerð?

Eftir keiluskurðinn er sár á leghálsinum og búast má við smá blæðingu eða brúnleitri útferð í allt að 3 vikur á eftir. Keiluskurðurinn á ekki að hafa nein áhrif á tíðarhringinn. Ef konan verður vör við verulegar blæðingar, illa lyktandi útferð, verki í kviðarholi eða að líkamshitinn fari yfir 38° er ráðglagt að hafa samband við vakthafandi deildarlækni þar sem aðgerðin fór fram.

Hvað má gera eftir keiluskurð?

Konur eru frá vinnu í 2 til 10 daga eftir keiluskurð, en það getur verið einstaklingsbundið og fer einnig eftir starfi. Ráðlagt er að stunda ekki þrekæfingar né hafa samfarir í allt að 5 vikur eftir keiluskurð. Vegna blæðingahættu er konum ráðlagt að fara ekki til útlanda innan við tveim vikum eftir keiluskurð, en óhætt er að fara í innanlandsflug daginn eftir.

Nánari upplýsingar um keiluskurð má nálgast á kvennadeild Landspítalans. Sími þar er: 543-1000.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar