Hvað er keiluskurður?
Keiluskurður er einföld skurðaðgerð sem felst í því að neðsti hluti leghálsins er skorinn burtu.
Hvers vegna fara konur í keiluskurð?
Allt fólk með legháls (t.d. konur og sumir trans einstaklingar) er hvatt til að fara í leghálsskoðun reglulega. Ef að krabbameinsleitin gefur til kynna að frumubreytingar eigi sér stað er mikilvægt að framkvæma keiluskurð til að koma í veg fyrir frekari frumubreytingar.
Keiluskurður er gerður ef leghálsspeglun með vefjasýnatöku staðfestir að frumubreytingar hafi átt sér stað. Frumubreytingarnar eru yfirleitt af völdum HPV-veira.
Hvernig fer keiluskurður fram?

Keiluskurð er best að gera rétt eftir að tíðablæðingar hafa átt sér stað. Aðgerðin er oftast gerð í staðdeyfingu og framkvæmd á svipaðan hátt og kvenskoðun. Sett er áhald í leggöng sem heldur þeim opnum og gerð er ítarleg skoðun á leghálsi með smásjá. Lögð er staðdeyfing í leghálsinn og svo er lítill bútur skorinn af. Heildarferlið tekur 10 til 15 mínútur og má fara heim að aðgerð lokinni. Í einstaka tilfellum fer aðgerðin fram í svæfingu. Mætt er í aðgerðina að morgni til og farið heim síðdegis sama dag. Aðgerðin er gerð í gegnum leggöng og tekur um 15 til 20 mínútur. Neðsti hluti leghálsins er skorinn burtu, oftast með rafskurði og í um 95% tilfella hverfa forstigs frumubreytingar alveg. Nauðsynlegt er að mæta í langtímaeftirlit eftir aðgerð, vegna hættu á endurteknum forstigsbreytingum.
Hvar er keiluskurður framkvæmdur?
Keiluskurður er framkvæmdur á spítölum. Eftirfarandi spítalar framkvæma keiluskurð:
- Kvennadeild Landspítalans. Sími þar er: 543-3270.
- Sjúkrahúsið á Akureyri. Sími þar er: 463-0100.
- Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Sími þar er: 422-0500.
- Sjúkrahúsið á Akranesi. Sími þar er: 430-6000.
Þú færð eflaust upplýsingar um hvert er best að fara eftir að þú hefur farið í leghálsskoðun sem hefur gefið til kynna að frumubreytingar eigi sér stað.
Hvaða aukaverkanir geta fylgt keiluskurðsaðgerð?
Eftir keiluskurðinn er sár á leghálsinum og búast má við smá blæðingu eða brúnleitri útferð í allt að 3 vikur á eftir. Keiluskurðurinn á ekki að hafa nein áhrif á tíðarhringinn. Ef konan verður vör við verulegar blæðingar, illa lyktandi útferð, verki í kviðarholi eða að líkamshitinn fari yfir 38° er ráðlagt að hafa samband við vakthafandi deildarlækni þar sem aðgerðin fór fram.
Hvað má gera eftir keiluskurð?
Ekki er nauðsynlegt að hvíla sig sérstaklega eftir aðgerð og geta flestir mætt til
vinnu/skóla daginn eftir aðgerð. Ef unnin er líkamlega þung vinna er mælt með að vera
heima í 2-7 daga. Ráðlagt er að stunda ekki þrekæfingar né hafa samfarir í allt að 4-5 vikur eftir keiluskurð. Vegna blæðingahættu er konum ráðlagt að fara ekki til útlanda innan þriggja vikna eftir keiluskurð, en óhætt er að fara í innanlandsflug daginn eftir. Til að sárið grói sem best og til að minnka sýkingarhættu er mælt með að nota ekki túrtappa né álfabikar og sleppa því að fara í sund, heita potta og bað fyrstu vikurnar á eftir.
innig á að forðast notkun túrtappa og álfabikars og að fara í sund, heita potta og bað.
Nánari upplýsingar um keiluskurð má nálgast á kvennadeild Landspítalans. Sími þar er: 543-1000.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?