Allar konur þurfa að fara í leghálskrabbameinsleit eftir 23 ára aldur ef þær hafa stundað kynlíf

Leghálskrabbamein og frumubreytingar stafa af vírusnum HPV, sem smitast við samfarir. HPV smitast við kynlíf, kynfærasnertingu, munnmök og endþarmsmök. Allir geta smitast af HPV; óháð kyni eða kynhneigð. Smokkur veitir ekki fullkomna vörn og þess vegna þurfa allir að fara í skoðun, jafnvel þótt það sé langt síðan kynlíf var síðast stundað eða þótt smokkur hafi verið notaður. Ef þú hefur aldrei stundað kynlíf af neinum toga þarftu ekki að fara í leghálskrabbameinsleit.

Hvað er þetta HPV?

HPV er skammstöfun fyrir Human Papilloma Virus. Flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar, hættulausar og ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin þó valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á nokkrum árum frekar en áratugum, en best er að finna frumubreytingar sem fyrst svo hægt sé að grípa inn í strax. HPV er algengasti kynsjúkdómurinn á Íslandi, en um 80% fólks sem hefur stundað kynlíf sýkist af HPV. Vírusinn hverfur þó oftast sjálfur á 6-24 mánuðum.

Hversu mikilvæg er leghálkrabbameinsleit?

Dánartíðnin hefur lækkað um 90% frá því að leit hófst árið 1964, svo það er augljóst að leghálskrabbameinsleit er mjög mikilvæg!  En það er ekki hægt að koma í veg fyrir krabbamein með því að senda út bréf og bjóða konum að koma í leit. Það næst enginn árangur nema að konur mæti. Nú mæta aðeins 65% allra kvenna í leghálskrabbameinsleit. Í Svíþjóð mæta 80% og í Englandi 83% í leghálskrabbameinsleit.

Af hverju er bara leitað hjá 23 ára og eldri?

Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá ungum konum, yngri en 23 ára. Þó flestar ungar konur smitist af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlíf þá hverfur sýkingin hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilfella er hún horfin innan tveggja til þriggja ára. Ef byrjað er að leita fyrr er hætta á að finna frumubreytingar sem aldrei hefðu þróast í leghálskrabbamein.  Leitin miðast við að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða.

Hvað þarf ég að fara oft í leghálsskoðun?

Konur á aldrinum 23-29 ára þurfa að fara á þriggja ára fresti en þær sem eru 30-64 ára eru boðaðar á 5 ára fresti. Ef þú kemur sjaldnar en á þriggja ára fresti eykst hættan á að greinast með alvarlegar frumubreytingar eða krabbamein. Ef þú kemur oftar en á þriggja ára fresti eykst hættan á að greina frumubreytingar sem ekki leiða til krabbameins og auka líkur á ónauðsynlegu eftirliti, leghálsspeglunum eða keiluskurðum.  Þú færð sent boðsbréf þegar þú átt að mæta í  leit.

Ok, hvar á ég að mæta?

Heilsugæslustöðvarnar sjá um sýnatökuna.

Sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar sjá einnig um leghálsskimanir. Upplýsingar um þá færð þú t.d. á ja.is. Það er töluvert dýrara að fara í sýnatöku hjá kvensjúkdómalækni heldur en á heilsugæslustöðvunum.

Hvernig fer svona leit fram?

Svona skoðun er auðvitað ekkert æðislega kósí, en hún er alls ekki hræðileg, tekur stuttan tíma og er lítið mál. Þú pantar tíma hjá heilsugæslunni þinni eða kvensjúkdómalækni.

Þú leggst niður ber að neðan í þartilgerðan bekk og setur fótleggina í stoðir til að auðvelda sýnatökuna.  Læknirinn kemur svokölluðum andagoggi fyrir í leggöngunum til að opna þau betur og tekur svo strok með pinna úr leghálsi. Goggurinn er kannski smá kaldur en það er ekkert til að kvarta yfir. Sýnatakan tekur innan við 2 mínútur (í flestum tilfellum örfáar sekúndur) og er sársaukalaus þó þú finnir kannski smá þrýsting eða léttan sting þegar pinninn fer inn í leghálsinn. Sumar konur og kvárar finna fyrir örlitlum verkjum í stutta stund eftir á sem svipa til vægra túrverkja.

Ef þú heyrir ekkert innan 3-4 vikna þá er ekkert athugavert við sýnið.  Ef einhverjar frumubreytingar finnast færðu sent bréf. Frumubreytingar eru ekki krabbamein en geta leitt til þess. Ef frumubreytingarnar finnast er oftast fyrst framkvæmd leghálsspeglun. Ef frumubreytingar eru komnar á hátt stig er þá framkvæmdur keiluskurður þar sem sýktu frumurnar eru skornar burt.

Áttavitinn hefur áður fjallað um keiluskurð.

Á heilsugæslustöðvum er einungis greitt komugjald og kostar leghálssýnið því litlar 500 kr.

Það kostar meira hjá sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknum (yfir 10.000 kr.). Mörg fyrirtæki og stéttarfélög taka þátt í kostnaðinum svo geymdu kvittunina.

Athugaðu að ekki er hægt að taka sýni á meðan þú ert á blæðingum.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar