Af hverju fær fólk unglingabólur?
Unglingabólur koma fram vegna breytinga í fitukirtlum húðarinnar. Fitumyndun í kirtlunum eykst vegna hormónabreytinga og op kirtlana þrengjast eða lokast. Í kjölfarið fjölga bakteríur sér í fitukirtlunum og þá myndast bólga og gröftur. Unglingabólur er mjög algengur sjúkdómur en talið er að allt að 30% – 40% fólks fái hann. Yfirleitt hefst hann á unglingsárunum en þó getur hann komið síðar.
Orsakir breytinganna geta verið mismunandi eftir fólki
Stundum hafa erfðafræðilegir þættir áhrif. Einnig er talið að mataræði geti skipt einhverju máli, s.s. mikil neysla sykurs gæti aukið á einkennin, en það hefur þó ekki verið sannað. Líklega er það persónubundið hversu mikið mataræðið hefur áhrif á bólur. Óhreinindi í húðinni orsaka ekki unglingabólur og því er ekki hægt að þvo þær í burtu, eða vinna bug á þeim með andlitshreinsun.
Til eru nokkrar ólíkar gerðir af bólum
Miserfitt getur verið að halda þeim í skefjum en það fer eftir eðli þeirra. Yfirleitt er talað um fimm tegundir af bólum:
- opnir, svartir fílapenslar;
- lokaðir, hvítir fílapenslar;
- papúlur, eða rauðar upphækkanir;
- pústúlur, sem eru eins og graftarbólur;
- djúpar breytingar.
Hvað er til ráða við unglingabólum?
Í verstu tilfellum er fólki gefið sýklalyf til að fækka bakteríum í fitukirtlum. Lyfin Decutan og Roaccutan hafa gefið góða raun – en þeim geta fylgt töluverðar aukaverkanir. Eins er konum stundum gefnar getnaðarvarnapillur við bólum. Sumar tegundir þeirra geta haft jákvæð áhrif, t.a.m. tegundin Diane Mite. Við mildari tilfellum dugar yfirleitt góð umhirða húðar eða meðferð með kremum og hreinsiefnum. Best er að hafa samband við húðlækni eða snyrtifræðing til að fá faglegar ráðleggingar.
Önnur góð ráð
Einnig má próf ýmis húsráð:
- Að þvo húðina vel. Ekki skal þó nudda hana eða skrúbba, því við það getur sjúkdómurinn versnað.
- Að þvo hárið reglulega með sjampói. Fitugt hár sem kemst í snertingu við andlitið getur ýtt undir einkennin. Ennistoppur getur t.a.m. aukið á bólumyndun.
- Nota rakakrem sem inniheldur litla fitu.
- Ekki kreista bólurnar. Þá er líklegra að þær blossi upp aftur og ör myndist.
- Aldrei nota neglur ef maður kreistir bólur, því þær geta skilið eftir sig ljót ör. Best er að kreista ekki, en ef maður gerir það, gera það þá varlega með bómull eða sér til gerðum áhöldum sem viðurkennd eru af snyrtifræðingum.
- Varast mikinn hita, kulda, sólarbirtu og mengun. Stundum getur sólarljósið þó haft jákvæð áhrif.
- Ekki hafa fundist bein tengsl á milli mataræðis og unglingabóla. Ef fólk telur sig þó finna slík tengsl, er best að halda sig frá þeim fæðutegundum sem auka á einkennin.
- Fæðutegundir og annað sem aukið hafa bólumyndun hjá fólki, hefur t.d. verið sykur, mjólkurvörur og ostar, og áfengi og tóbak.
- Gott er að drekka nóg af vatni og hreyfa sig reglulega. Til eru ýmis góð ráð til að hreinsa líkamann og framkalla svonefnt detox.
Á heimasíðu Húðlæknastöðvarinnar má finna góðar upplýsingar um unglingabólur og meðferð við þeim.
Heimild: Húðlæknastöðin.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?