Hlutdeildarlán er ný tegund af húsnæðisláni sem var sett fram af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) árið 2020.

Um er að ræða 20% lán sem er hugsað fyrir þá einstaklinga sem eru undir ákveðnum tekjumörkum og geta nýtt lánið til þess að fjárfesta í eigin húsnæði í stað þess að vera fastir á leigumarkaði eða í foreldrahúsum.

Fyrir hverja eru hlutdeildarlán?

Hlutdeildarlán er í boði fyrir þá einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign eða þá sem hafa ekki átt húsnæði síðastliðin 5 ár.

Umsækjendur þurfa að vera undir ákveðnum tekjumörkum til að fá 20% Hlutdeildarlán. Þau tekjumörk eru eftirfarandi:

Einstaklingur með 630 þúsund á mánuði eða 7.560.000 kr. á ári.
Hjón / sambúðarfólk með 880 þúsund á mánuði eða 10.560.000 kr. á ári.
Fyrir hvert barn á heimilinu undir 20 ára aldri bætast 130.000 kr. á mánuði eða 1.560.000 kr. á ári.

Einstaklingar með enn lægri tekjur geta fengið 30% Hlutdeildarlán ef þau falla undir ákveðin tekjumörk. Þau tekjumörk eru eftirfarandi:

Einstaklingur með 428 þúsund á mánuði eða 5.018.000 kr. á ári.
Hjón / sambúðarfólk með 585 þúsund á mánuði eða 7.020.000 kr. á ári.
Fyrir hvert barn á heimilinu undir 20 ára aldri bætast 130.000 kr. á mánuði eða 1.560.000 kr. á ári

Kaupandi þarf að leggja fram 5% af kaupverði húsnæðisins sjálfur og er hægt að nýta séreignarsparnað upp í það.

Til þess að standast kröfur um Hlutdeildarlán mega afborganir af láninu ekki vera hærri en 40% af ráðstöfunartekjum þínum.

Hvernig virkar Hlutdeildarlán og endurgreiðslur á láninu?

Kaupandi sem hefur áhuga á að nýta sér Hlutdeildarlán þarf einungis að leggja fram 5% af kaupverði húsnæðisins í útborgun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir svo kaupanda Hlutdeildarlán fyrir 20% og þá þarf einungis 75% húsnæðislán hjá einhverri lánastofnun (banka, lífeyrissjóði…) til að ganga frá kaupunum.

Það eru engir vextir eða afborganir af hlutdeildarláni en lántakinn endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstímans.

Lánið er veitt til 10 ára, en það er heimilt að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, mest til 25 ára.

Gert er ráð fyrir því að endurgreiðslan fari fram í einu lagi ef þú selur fasteignina eða við lok lánsins 10-25 árum eftir að það er undirritað.

Það er hægt að greiða inn á Hlutdeildarlán og lækka þannig lánið, en þá þarf að greiða að lágmarki 5% af virði fasteignarinnar í hvert sinn.

Mun lánið hækka í verði með árunum?

Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar eða lækkar í samræmi við það.

Þetta þýðir að ef þú tekur 20% lán fyrir íbúð sem kostar 40 milljónir þá leggur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fram 8 milljónir í lán.

Ef eignin hefur svo hækkað um 5 milljónir í virði á lánstímanum og kostar því 45 milljónir við endursölu þá hækkar Hlutdeildarlánið í samræmi við það og þú greiðir 9 milljónir til baka.

Ef eignin hefur hinsvegar lækkað um 5 milljónir í virði á lánstímanum og kostar 35 milljónir við endursölu þá lækkar Hlutdeildarlánið í samræmi við það og þú greiðir þá 7 milljónir til baka.

Er hægt að nýta Hlutdeildarlán fyrir öll húsnæði?

Hlutdeildarlán eru einungis veitt á nýjum íbúðum sem eru samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á grundvelli samnings milli HMS og byggingaraðila.

Í undantekningartilfellum er heimilt að lána Hlutdeildarlán vegna kaupa á eldri íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Hvernig sæki ég um Hlutdeildarlán?

Hægt er sækja um Hlutdeildarlán hér.

Úthlutun á Hlutdeildarlánum fer fram sex sinnum á ári, þrisvar sinnum á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og þrisvar á tímabilinu 1. júlí til 31. desember.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar