Allar pottaplöntur þurfa vatn, en þó mismikið og mis oft. Þegar blóm eru vökvað þarf að passa að moldin verði ekki gegnsósa af vatni, þá fá ræturnar ekki nægilegt súrefni. Til eru fáeinar undantekningar á þessari reglu, um blóm sem þrífast best í mjög blautri mold. Sumum plöntum hentar best að moldin þorni alveg á milli þeirra skipta sem vökvað er. Plöntur skal vökva með volgu vatni (20-30°) sem tekið er úr kalda krananum.
Hvað á að gera ef moldin er orðin þurr?
Stundum verður moldin í blómapottinum svo skrælþurr að hún nær ekki að blotna nægilega við vökvun; vatnið lekur í gegnum hana. Þá er gott að dýfa pottinum ofan í volgt vatn svo það fljóti yfir brúnir hans og láta hann standa í vatninu þar til loftbólur eru hættar að stíga upp á yfirborðið.
Best er að kynna sér vel þarfir hverrar plöntu sem maður eignast. Þær þurfa mismikla birtu og vökvun. Upplýsingar um umönnun plantna má fá í blómabúðum og hjá garðyrkjustöðvum.
Pottaplöntur þurfa stundum að fara í sturtu.
Þær rykfalla innandyra og hafa gott af að fara í smá steypibað um fjórum sinnum á ári. Þeim er þá komið fyrir í sturtubotni eða baðkari og settar í volga sturtu. Gott er þá að potturinn sé með gati í botninn, annars þarf að leggja plast yfir moldina svo vatnið fylli ekki upp í pottinn.
Það hefur sýnt sig að þær plöntur sem talað er við og sýnd er ást og umhyggja, dafna betur en aðrar. Plöntur eru jú lífverur.
Nokkrar þumalputtareglur sem hægt er að styðjast við…
- Kaktusar og ýmsir þykkblöðungar þola og þurfa mikið sólskin. Þeir eiga að þorna vel á milli þess sem vökvað er.
- Harðgerar plöntur á borð við Mánagull og Tengdamömmu og -pabba þola bæði sólskin og skugga. Þær þurfa mikla vökvun í sólskini en minni í skugga.
- Skuggaplöntur, á borð við Drekatré og Maríulauf, þurfa hóflega en óreglulega vökvun.
- Burkni, pálmar, Jólastjarna og fleiri álíka plöntur þurfa reglulega vökvun og góða birtu, en þola ekki mikið sólskin.
- Blómstrandi plöntur, á borð við Pelargóníu og Hawai-rós, þola vel hita og sólskin og þurfa reglulega vökvun.
Hvernig umpottar fólk plöntum?
Plönturnar vaxa og stækka og því þarf oftar en ekki að setja þær í stærri potta. Gott er að gera þetta árlega og endurnýja moldina hjá þeim í leiðinni. Best er að umpotta á vorin, frá mars og þar til í maí, en þetta má gera allt fram í ágúst. Umpottun að vetri getur riðið heilsuhraustum plöntum að fullu.
- Þegar planta er færð yfir í nýjan og stærri pott er best að kaupa nýja mold, sérstaka áburðarblandaða mold sem fæst í blómabúðum, til að setja hana í.
- Tekið er í stilkana á plöntunni, gamla pottinum snúið við og honum slegið létt í borðbrún, svo plantan losni úr pottinum. Hún er svo sett í nýju moldina ásamt þeirri mold sem við hana loðir, en nýja moldin sett undir og umhverfis hana í pottinum.
- Strax eftir umpottun skal plantan vökvuð vel. Vegna áburðarins í moldinni er óþarft að gefa henni áburð fyrr en að 6-8 vikum liðnum.
- Næstu eina til tvær vikurnar eftir umpottun er plantan höfð á björtum stað, en þó ekki í of miklu sólskini.
Sumar plöntur geta verið skaðlegar fyrir börn og dýr. Á vef Lýðheilsustöðvar má finna upplýsingar um skaðsemi ýmissa plantna. Best er að kynna sér allar hættur sem planta kann að hafa í för með sér, áður en hún er tekin inn á heimilið.
Hvernig tekur fólk afleggjara af plöntum?
Ungir sprotar eru teknir af fullvöxnum plöntum, helst að vori eða sumri til. Þeir eru látnir standa í vatni, t.d. í vatnsglasi, fyrst um sinn. Þegar þeir hafa myndað rætur í vatnsglasinu eru þeir gróðursettir í nýja mold í blómapotti af hentugri stærð. Þegar afleggjararnir hafa vaxið þannig að rætur þeirra fylla út í pottinn þarf að setja þá í stærri pott, það er að segja umpotta, eins og lýst er hér að ofan.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?