Þó svo að formlegt nám í skólum verði æ mikilvægara þegar kemur að því að landa góðri vinnu er þó ekki nóg að hafa bara próf eða gráðu. Að baki þess verður að liggja þekking og kunnátta. Fólk aflar sér kunnáttu og vits með ýmsum leiðum: af foreldrum sínum og vinum, úr sjónvarpi, af kennurum, í vinnu . . . og svona mætti lengi telja. Með tilkomu Netsins hafa auk þess opnast ótal leiðir til að fræðast um hin og þessi málefni eða læra nýja hluti. Google og Wikipedia eru sennilega einir frægustu, óformlegu skólarnir í dag. Og alltaf bætast við fleiri og fleiri tól sem mennta fólk óformlega – og flest þeirra þarf ekki einu sinni að borga fyrir!
En af hverju ætti einhver að verja frítíma sínum í nám? Jú, í fyrsta lagi er náttúrulega stórskemmtilegt að fræðast um það sem maður hefur áhuga á; hvort sem það er náttúran, vísindi, eldamennska, fólk, útsaumur, kvikmyndir – nú eða þess vegna stærðfræði. Það getur komið vinum (og atvinnuveitendum!) skemmtilega á óvart ef maður kann eitthvað sem þeir bjuggust ekki við. Þar að auki er mikilvægt að bæta reglulega við þekkingu sína og rækta þannig hugann; fyrir vikið verður fólk meðvitaðra um umhverfi sitt, meðtækilegra fyrir nýjum hugmyndum og þekkingu, gagnrýnna í hugsun og einfaldlega hæfara í lífinu öllu. Fordómar og fáfræði eru nefnilega náskyld hugtök!
Hér fylgja 10 vefsíður sem bjóða upp á einhvers konar fyrirlestra, sjálfsnám eða skemmtilegan fróðleik.
1.) TED.com
Ted heldur úti gagnagrunni yfir fjöldann allan af fyrirlestrum. Umfjöllunarefnin eru allt frá tækni og vísindum yfir í afþreyingarefni og hönnun. Margir þekktir fyrirlesarar hafa haldið svokölluð „Ted Talks“ sem notið hafa mikilla vinsælda. Nokkrir fyrirlestrar hafa meira að segja verið þýddir yfir á íslensku. TED.com er fróðlega síða sem leggur metnað sinn í að skila flóknum hugmyndum á mannamáli.
2.) Khan Academy
Khan-Akademían er netskóli sem býður upp á fjölda verkefna og fyrirlestra í hinum ýmsu greinum. Mætti þar nefna sögu, eðlisfræði, fjármál og listir. Einnig er Khan Academy stórsniðugt tól fyrir þá sem vilja rifja upp, læra eða glöggva sig á stærðfræðinni. Eina sem þarf að gera er að skrá sig inn.
3.) Jamie Oliver kennir öpum að elda
Nám þarf ekki alltaf að vera bóklegt – og þá síður en svo! Hvernig væri til dæmis að hertaka eldhúsið eins og einn dag í viku? Á þessari síðu fer Jamie Oliver yfir ýmislegt sem kemur að matseld – hann fjallar um tólin, tækin, tæknina og uppskriftirnar. Öllum greinum fylgja myndir eða myndbönd og því ætti þetta að vera algjörlega „fávita-hælt“. Góður staður fyrir byrjendur.
4.) MIT
MIT er fremsti háskóli heimsins í dag. Það er hægara sagt en gert að komast inn í hann – og hvað þá borga fyrir skólagjöldin! Hinsvegar má nálgast hundruði fyrirlestra og kennsluefni í 50 mismunandi fögum – allt frítt á Netinu. Það þarf ekki einu sinni að skrá sig inn! Kjörið fyrir þá sem vilja taka eins og einn krefjandi kúrs í sumarfríinu.
5.) 5min.com
Hugmyndin á bakvið 5MIN er sú, að hægt sé að útskýra allt á 5 mínútum. Hvort svo það tekst verður látið liggja á milli hluta. Hinsvegar má finna ótal 5 mínútna myndbönd á síðunni sem reyna einmitt að gera þetta. Til að mynda er ýmsu uppljóstrað um leyndardóma mannskepnunar, fjallað er um tölvuleiki og sjónvarpsþætti, fólki er kennt að elda mat, leysa vandamál á tölvunni, og fleira og fleira. Hvernig væri nú að eyða 5 mínútum á dag í að læra eitthvað nýtt?
6.) 100 inngangs-kúrsar á einum stað
Í bloggfærslu á BestCollegesOnline.com tók samviskusamur bloggari saman lista yfir 100 inngangs-námskeið í hinum ýmsu fögum; allt frá félagsfræði, sögu og listum, yfir í stærðfræði, vísindi og tölvur. Þetta hentar þeim vel sem vilja fá nasaþefinn af því sem þeir halda að þeir hafi áhuga á.
7.) OpenStudy
Síðan OpenStudy er hlekkja-súpa á fjöldan allan af námskeiðum á Netinu. Viðmótið er afskaplega einfalt; maður ýtir á „start“, velur sér fag og getur svo byrjað að fræða sig á sínum eigin hraða.
8.) Wiki How
WikiHow er notendakeyrð upplýsingasíða þar sem nálgast má fróðleik og leiðbeiningar varðandi allan fjandann. Fólk getur sent inn greinar í yfir 20 flokkum og skilyrði um umfjöllunarefni eru mjög opin. Því má finna allt á milli himins og jarðar á síðunni: hvernig teikna má kött, hvernig hægt er að hreinsa tölvur, leiðbeiningar um hvernig skal mæla olíu á bíl, hvernig hægt sé að tala við andfúla . . . Listinn er ótæmandi. Mjög skemmtileg, en umfram allt, fróðleg síða.
9.) DIY-Network
DIY stendur fyrir Do It Yourself. Þessi síða er því ætluð þeim sem eru svolítið laghentir og tíma alls ekki að borga iðnaðarmanni fyrir létt viðhald eða einfaldar framkvæmdir. Flokkar síðunnar eru 11 talsins og eru nefndir nöfnum eins og Pípulagnir, Gólf, Rafmagn og Baðherbergið. Á síðunni má nálgast greinar, myndir, leiðbeiningar og myndbönd. En er jafn auðvelt að skipta um ljósaperu og það lítur út fyrir að vera?
10.) Codecademy.com
Nörd-alert! Codecademy er opin skóli fyrir þá sem langar að taka sín fyrstu skref í kóðun og forritun. Hér eru kennd grundvallaratriði í HTML, CSS og Java. Síðan er afskaplega þæginleg í notkun: Hún leiðir nemendur í gegnum flókið nám á mjög aðgengilegan máta. Rósirnar eru #FF0000, sjórinn er #0000FF.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?