Grundvallarhugsunin
Í hvert sinn þegar að stærðfræðidæmi er leyst er verið að þjálfa heilann til að leysa almenn vandamál. Eftir því sem líður á nám verða dæmin flóknari og hjálpar þetta nemendum að skilja afstrakt hugsun sem önnur fög eiga erfiðara með að kynna. Auk þess er nemendum kennt að fást við einföld vandamál og draga þau svo saman til að leysa erfiðari þrautir. Með þessari þekkingu eykur það möguleika til að kljúfa stór vandamál niður í grundvallarþætti en sú þekking kemur sér vel fyrir marga á lífsleiðinni. Stærðfræðikunnátta mun ávallt auka framtíðarmöguleika einstaklinga og kemur sér vel í atvinnulífinu.
En stærðfræði er svo erfið!
Mörgum finnst stærðfræði erfið, sem er skiljanlegt, og í gegnum árin hafa komið fram margs konar rangfærslur varðandi hana. Enginn munur er á kynjunum þegar að stærðfræði er annars vegar og þó hún virðist erfið fyrst um sinn þá eiga flestir að standa jafnfætis yfir lengra tímabil. Þess vegna þarf enginn að örvænta þó það gangi illa í stærðfræðinámi og viðkomandi haldi að hann sé að dragast aftur úr. Nú til dags eru til ýmsar aðferðir til að bæta nám, til dæmis á internetinu, og þegar búið er að komast yfir erfiða hjalla á skilningur á efninu að ganga hraðar fyrir sig.
Bóknám
Margir gera sér ekki grein fyrir hve algeng stærðfræði er í háskóla. Ef skoðaðar eru allar þær greinar sem bjóða upp á fullt grunnnám (180 einingar) í Háskóla Íslands eru mjög fá* fög sem ekki eru með einhvers konar stærðfræði í skyldu. Algengast er að nemendur þurfi að læra tölfræði en hún er nauðsynleg við greiningu gagna og því mikilvæg í mörgum fögum. Hægt er að skoða mismunandi fög hjá Háskóla Íslands í kennsluskrá hans.
Stærðfræði er vissulega mikilvægust í verk- og raunvísindum en þær greinar eru grundvallarhluti vísinda- og tæknigeirans. Þeir sem hafa áhuga á þessum viðfangsefnum ættu því að kynna sér fræðigreinina betur og alls ekki gefast upp þó efnið virðist erfitt fyrst um sinn.
Listir
Ekki er nauðsynlegt að kunna stærðfræði til að læra listgreinar en hún getur komið sér vel í sumum fögum. Til dæmis er góð þekking á rúmfræði mikilvæg til að skilja þrívíddarform á tvívíðu plani. Hér eru nokkur önnur dæmi:
- Listmálarinn Salvador Dali notaðist talsvert stærðfræði og byggði sum verk á flóknum formum.
- Leikstjórinn Paul Thomas Anderson notaðist við gullinsniðið við gerð myndarinnar There Will be Blood.
- Til er stefna í tónlist sem heitir stærðfræðirokk og gengur út á að byggja upp tónverk eftir stærfræðiformúlum.
- Tölvuleikjagerð, tölvuteiknimyndgerð og tæknibrellur byggjast öll á forritun en í grundvallarhugtökum hennar eru mörg stærðfræðileg hugtök, til dæmis vigrar.
Nánar er hægt að lesa um stærðfræði og listir í grein á ensku Wikipedia.
Iðnnám
Iðnaðarmenn vinna mikið með efni og einingar. Þeim verður að vera tamt að breyta milli mismunandi mælieininga og notast mikið við tölur í vinnu sinni. Þeir þurfa oft að hafa grundvallarskilning á ýmsum fræðigreinum. Til dæmis þurfa sumir smiðir að hafa þekkingu á burðarþolsfræði, -því kemur sér vel fyrir iðnaðarmenn að hafa tök á ákveðnum hlutum stærðfræðinnar.
Daglegt líf
Margt í daglegu lífi krefst þess að við getum notað stærðfræði, til dæmis þegar reikna þarf: afslátt, skattahlutföll, gera heimilisbókhald, semja um tryggingar, semja um lánakjör og margt fleira. Góð þekking á stærðfræði getur í mörgum kringumstæðum komið sér vel fyrir hinn venjulega einstakling, þó hann þurfi ekki að nota hana í starfi.
*Þjóðfræði, lögfræði, danska, enska, franska, spænska, þýska, bókmenntafræði, málvísindi, íslenska og táknmálsfræði og táknmálstúlkun.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?