Hvað er Stúdentaráð Háskóla Íslands?
Stúdentaráð eru heildarsamtök og samráðsvettvangur allra stúdenta við Háskóla Íslands og hefur það starfað frá árinu 1920. Ráðið er skipað 27 stúdentum sem reyna eftir fremsta megni að bæta hag allra stúdenta við Háskóla Íslands. Kosið er til Stúdentaráðs í febrúar ár hvert, en hvert fræðasvið innan HÍ kýs í sitt sviðsráð. Saman mynda sviðsráðin fimm Stúdentaráð.
Stúdentaráð berst fyrir og stenDur vörð um réttindi stúdenta í háskóla Íslands
Skrifstofa Stúdentaráðs er á 3. hæð á Háskólatorgi en þar starfa forseti, varaforseti, hagsmunafulltrúi og lánasjóðsfulltrúi, framkvæmdastjóri og ritstjóri. Starfsmenn skrifstofunnar eru starfsmenn Stúdentaráðs og taka m.a. við ábendingum frá sjö manna stjórn Stúdentaráðs og halda mánaðarlega fundi með öllu Stúdentaráði.
Fastanefndirnar 10
Undir Stúdentaráði starfa tíu fastanefndir sem beita sér fyrir margvíslegum hagsmunamálum stúdenta, en þær eru;
- Alþjóðanefnd
- Félagslífs- og Menningarnefnd
- Fjármála- og Atvinnulífsnefnd
- Fjölskyldunefnd
- Lagabreytinganefnd
- Nemendafélagsnefnd
- Jafnréttisnefnd
- Umhverfis- og Samgöngunefnd
- Náms- og Kennslumálanefnd
- Nýsköpunar og Frumkvöðlanefnd
Fyrir hvað stendur SHÍ?
Stúdentaráði Háskóla Íslands má í raun líkja við stéttafélag fyrir stúdenta. Það gerir sitt besta til að verja hagsmuni stúdenta innan skólans sem utan hans t.d. varðandi húsnæðismál, lánasjóðsmál, sein einkunnaskil kennara og í kærumálum nemenda svo að fá dæmi séu nefnd. Aðaláherslur ráðsins geta verið breytilegar frá ári til árs enda er af ógrynni hagsmunamála að taka og oft getur verið mikil kúnst að velja sér slagi.
Hvað hefur SHÍ afrekað?
Sigrar Stúdentaráðs eru ófáir en hér verður komið með örfá dæmi um afrek SHÍ;
- Félagsstofnun stúdenta (FS) var stofnuð árið 1968 að frumkvæði ráðsins
- Stúdentaráð stefndi stjórn LÍN árið 2014 vegna breytinga á lánareglum
- Stúdentaráð átti hugmyndina um aðgangskortin að byggingum HÍ
- Stúdentaráð beitti miklum þrýstingi til þess að fá Háskólatorg byggt.
- Fyrsti stúdentagarðurinn (Gamli Garður) var byggður að frumkvæði stúdenta og tekinn í notkun árið 1934
- Stúdentakjallarinn var samvinnuverkefni Stúdentaráðs og FS
- Stúdentaráð heldur Októberfest ár hvert fyrir nemendur HÍ
Hvernig er hægt að taka þátt?
Allir skráðir nemendur Háskóla Íslands eru kjörgengir og geta boðið sig fram til sviðsráða Stúdentaráðs. Áður fyrr þurftu nemendur að bjóða sig fram í gegnum fylkingar, en nú er einnig búið að opna fyrir einstaklingsframboð. Nemandi á félagsvísindasviði getur þó einungis boðið sig fram til sviðsráðs félagsvísindasviðs. Ef hann nær kjöri í sitt sviðsráð er hann þá einnig orðinn meðlimur Stúdentaráðs sem mun starfa sem regnhlífarsamtök yfir sviðsráðunum. Framboði til sviðsráðs skal skila til kjörstjórnar sem auglýst er fyrir hverjar kosningar. Framboðið þarf að vera skriflegt og því skal fylgja skriflegt samþykki allra þeirra sem í því eru. Hver einstaklingur í framboði þarf skriflegan stuðning frá 15 nemendum af sínu sviði, en frambjóðendur af lista geta safnað undirskriftum sínum í nafni listans. Þó þarf listi aldrei að fá fleiri en 120 undirskriftir í heildina. Áhugasamir geta kynnt sér betur reglur Stúdentaráðs eða starfsemi fylkinganna, en mjög algengt er að þeir sem sitja ekki sjálfa Stúdentaráðsfundina vilji taka þátt í innra starfi fylkinganna og/eða starfa með nefndum Stúdentaráðs.
Engrar sérstakrar reynslu eða hæfni er krafist vegna framboðs til sviðsráðanna, en þar sem þetta eru stórar kosningar er auðvitað æskilegt að þeir sem hyggjast bjóða sig fram hafi áhuga á málstaðnum og séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum í hagsmunabaráttu stúdenta.
Hjá Stúdentaráði er hægt að…
- Öðlast ómetanlega reynslu í félagsstörfum
- Eignast ógrynni af nýjum vinum
- Starfa og þroskast í frjóu umhverfi ungs fólks sem stefnir hátt í lífinu og vinnur af hugsjón
- Hafa áhrif á sitt nærumhverfi og fylgjast með þeim breytingum sem koma háskólanum og nemendum hans oftast til góða
- Fá tækifæri til að kynnast starfsfólki skólans sem flest er allt af vilja gert og vill allt gott fyrir stúdenta gera
Stúdentaráð Háskóla Íslands
Háskólatorgi
Sæmundargötu 4
101 Reykjavík
Sími: 570 – 0850
Netfang: shi@shi.is
Heimasíða: www.studentarad.is
Á Fésbókinni: http://www.facebook.com/Studentarad
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?