Hvað er listnám?
Listnám er nám í skapandi greinum á framhaldsskólastigi. Töluvert framboð er af listnámsbrautum, svo sem í myndlist, fata- og textílhönnun, ljósmyndun, listdansi og tónlist.
Af hverju að velja listnám?
Tilgangur listnáms er að undirbúa nemendur undir frekara nám í listum og skapandi greinum á háskólastigi. Fólk er þjálfað í skapandi hugsun og kennt að koma hugmyndum í framkvæmd. Ólíkar áherslur eru að sjálfsögðu eftir brautum. Þannig læra nemendur á myndlistarbraut grunnþætti í teikningu, meðferð málningar, listasögu og margt fleira. Á fata- og textílhönnunarbraut eru nemendur þjálfaðir í saum, sniði, þrykki og öðru sem viðkemur hönnun fata og búninga.
Hvað er listnám langt?
Listnám tekur þrjú ár og útskrifast nemendur með listnámsbrautarpróf. Þá er hægt að bæta við sig einu ári af bóklegu námi og útskrifast með stúdentspróf. Í sumum greinum geta nemendur tekið sveinspróf í framhaldinu, til að mynda orðið klæðskerar eða gullsmiðir.
Hver eru inntökuskilyrðin í listnám?
Til að komast á listnámsbraut þarf nemandi að hafa lokið grunnskólaprófi með lágmarkseinkunn. Ef nemandi hefur útskrifast með fall þarf hann að ljúka námi á almennri braut fyrst.
Hvar er listnám kennt?
Fjölmargir skólar bjóða nú upp á listnám á menntaskólastigi. Hér til hægri má finna yfirlit Áttavitans yfir alla þá skóla á landinu sem bjóða upp á listnám. Hér fyrir neðan má finna tengla sem vísa beint á heimasíður skólanna.
Eftirfarandi skólar bjóða upp á listnám á framhaldsskólastigi:
- Fjölbrautaskólinn í Breiðholti,
- Tækniskólinn,
- Menntaskólinn á Tröllaskaga
- Menntaskólinn við Hamrahlíð,
- Menntaskólinn í Kópavogi,
- Fjölbrautaskóli Vesturlands,
- Fjölbrautaskóli Suðurnesja,
- Menntaskólinn á Egilsstöðum,
- Fjölbrautaskólinn í Garðabæ,
- Iðnskólinn í Hafnarfirði,
- Verkmenntaskólinn á Akureyri.
- Borgarholtsskóli.
Eftirfarandi skólar bjóða einnig upp á nám í skapandi greinum:
- Myndlistaskólinn í Reykjavík,
- Myndlistaskólinn á Akureyri,
- Hússtjórnarskólinn í Reykjavík,
- Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað,
- Klassíski listdansskólinn,
- Kvikmyndaskóli Íslands.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?