Hvernig getum við örvað minnið?

Til eru margar aðferðir til að leggja hluti á minnið. Yfirleitt er talað um að við notum tvær meginaðferðir til að muna. Fyrri aðferðin er sú að búa til mynd af hlutnum/minningunni í höfðinu. Þetta tengist skynminninu (það sem nemur upplýsingar í gegnum skynfærin) og er yfirleitt notað þegar við þurfum að muna eftir t.d. listaverkum, félagslegum atburðum eða fyrirbærum og sögusviði í bókmenntum. Hin aðferðin er að muna hluti um það bil orðrétt eða utan bókar. Þessi aðferð reynist vel þegar smávegis ónákvæmni getur skipt sköpum, eins og til dæmis að muna ákveðna lagagrein, stærðfræðiformúlu, eðlisfræðilögmál, rétta merkingu orða eða leiktexta.

Þegar talað er um minnistækni er átt við aðferðir til þess að muna upplýsingar eða mikilvægt efni sem annars væri erfitt að rifja upp. Góð minnistækni getur hjálpað til við að festa minningar í langtímaminninu og rifja þær upp þegar á þarf að halda.

Nokkrar minnistækni aðferðir:

  • Upphafsstafa aðferðin: Virkar vel þegar muna þarf orðarunur. Hún er þannig að búin er til setning úr upphafsstöfum þeirra orða sem þarf að muna. Til dæmis röð reikistjarnanna frá sólu: Merkúr – Venus – Jörð – Mars – Júpiter – Satúrnus – Úranus – Neptúnus – (Plútó) myndi verða Mikið varð Jón montinn jólin sem Úrsúla náði prófunum
  • Búa til vísu/rím/rapp: Menn hafa oft notað ljóð og vísur til að muna staðreyndir utanað, en talið er að taktur og rím hjálpi til að muna hvað kemur næst í vísunni og auðveldi þannig að rifja upp minningarnar. Dæmi um slíkar vísur eru til dæmis stafrófið, vísan um fjölda daga í mánuðum og vísan um óákveðin fornöfn sem margir hafa vafalaust strögglað við að muna í eldri bekkjum grunnskóla; “Annar, fáeinir, enginn, neinn…”.
  • Búa til myndir í huganum: Að búa til myndir í huganum yfir það sem muna skal getur reynst vel. Því fyndnari eða fáránlegri sem myndirnar eru því auðveldara er talið að muna þær. Ef þú átt til dæmis að muna orðin hestur og sjónauki gæti verið gott að ímynda sér hest í sjóarafötum, standandi á skipi horfandi í gegnum sjónauka.
  • Rómverska aðferðin/staðaaðferðin: Ein þekktasta minnistækni aðferðin. Þú ímyndar þér herbergi eða íbúð sem þú þekkir vel og velur ákveðna staði sem þú ætlar að geyma eða tengja minnisatriðin við; til dæmis náttborðið þitt, gluggakistan í stofunni, eldhúsborðið osfrv. Þegar þú leggur minnislista á minnið ferðu í gegnum rýmið í huganum (eða í alvörunni) og skilur eftir eitt atriði á hverjum stað. Þegar þú þarft svo að rifja upp hlutina gengurðu aftur í gegnum rýmið í huganum og týnir upp hlutina hvern á fætur öðrum.
  • Söguaðferðin: Þú býrð til sögu úr þeim hlutum sem þú þarft að muna, til dæmis innkaupalistanum. Því fyndnari og fáránlegri sem sagan er því auðveldara er að muna öll atriðin.
  • Staflaaðferðin: Þú býrð til stafla úr þeim atriðum sem þarf að muna. Þú sérð fyrir þér í huganum hvernig atriðin raðast hvert ofan á annað, í þeirri röð sem þau eiga að vera og sérð staflann ljóslifandi fyrir þér í huganum.

Önnur ráð til að viðhalda góðu minni:

  • Hægt er að nýta sér ýmsa hluti til að viðhalda góðu minni (nú og bara almennri heilsu); til dæmis:
  • Með því að læra eitthvað nýtt, til dæmis nýtt tungumál eða læra á hljóðfæri.
  • Með því að beina athyglinni að því sem mestu máli skiptir.
  • Með því að læra minnistækni. Hægt er að fara á sérstök námskeið í minnistækni.
  • Drekktu nægilega mikið vatn. Talið er að vökvaskortur geti komið óreiðu á hugann.
  • Sofðu nægilega mikið. Heilinn raðar minningunum í geymslu á meðan þú sefur.
  • Vertu afslöppuð(-aður) við lestur og nám. Streita eykur framleiðslu hýdrókortisóns, en það getur truflað tengingar taugafrumna.
  • Ekki reykja og drekktu áfengi í hófi (eða slepptu því). Reykingar minnka súrefnisflæði til heilans og áfengi getur truflað skammtímaminnið.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar