Hvernig sækir maður um í skóla erlendis?

Yfirleitt má finna umsóknaform á vefsíðu skólanna, ásamt leiðbeiningum um hvernig sækja skuli um. Einnig er hægt að hafa samband, símleiðis eða í tölvupósti, og spyrjast fyrir um hvernig umsóknum skuli háttað.
Fara skal nákvæmlega eftir öllum leiðbeiningum varðandi umsóknina, gæta þess að öll fylgigögn séu með og búið sé að senda og greiða allt á réttum tíma.
Nánari upplýsingar um nám erlendis, flokkað eftir löndum, má finna á vefsíðunni farabara.is

Fylgigögn með umsókn um skólavist erlendis eru oftar en ekki þessi:

  • Ferilskrá. Líkt og þegar sótt er um vinnu setur maður upp ferilskrá sína og miðar hana að þessu tiltekna námi. Á Áttavitanum má finna upplýsingar um gerð ferilskrár, en einnig má skoða myndbandið um hina svonefndu Europass ferilskrá. Oft er misjafn siður í landi hverju. Gott er að kynna sér viðmið um gerð ferilskráa í þessu tiltekna landi.
  • Staðfest afrit af prófskírteini. Oft má hafa það á ensku, en einstaka lönd vilja fá það á móðurmáli manns. Hægt er að biðja um prófskírteini á ensku og íslensku hjá þeim skóla sem maður lauk námi við. Biðja þarf um afrit, stimplað og undirritað. Senda þarf staðfest afrit, með stimpli, til allra þeirra skóla sem sótt er um. Ef þýða þarf prófskírteini yfir á annað tungumál þarf það að vera þýtt af löggiltum skjalaþýðanda. Finna má löggiltan skjalaþýðanda á vef Félags löggiltra dómtúlka og skjalþýðenda.
  • Kynningarbréf -motivation letter, statement of purpoes, admissions essay. Líkt og þegar sótt er um vinnu skal einnig skrifa kynningarbréf sérstaklega miðað að því námi sem sóst er eftir. Á Áttavitanum má lesa sér til um gerð kynningar- og umsóknarbréfa. Margir skólar eru þó með sérstök fyrirmæli um hvernig kynningarbréfið skuli vera og fara skal nákvæmlega eftir þeim. Gott er einnig að leita á netinu að upplýsingum um „motivation letter“ eða „statement purpose“ til að fá góðar hugmyndir um hvernig bréfið skuli vera. Yfirleitt er kynningarbréfið skrifað á því tungumáli sem maður mun læra á.
  • Meðmæli. Nauðsynlegt er að senda skrifleg meðmæli frá aðal kennara eða leiðbeinanda í lokaverkefni. Mjög algengt er að senda tvenn meðmæli, annað frá leiðbeinanda en hitt frá vinnuveitanda. Stundum er óskað eftir tvennum meðmælum frá kennurum og sumir vilja fá þau send beint frá meðmælendunum sjálfum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar