Af hverju að fara í skiptinám á háskólastigi?

Skiptinám gefur nemendum kost á að kynnast nýju landi, menningu, tungumáli og fólki. Auk þess eykst námsframboð því oft er hægt að taka námskeið við gestaskóla sem ekki eru í boði hérlendis. Að fara í skiptinám er mun einfaldara og ódýrara en að fara í fullt nám erlendis á eigin vegum.

Hvenær er hægt að fara í skiptinám?

Hægt er að fara í skiptinám bæði í grunn- og framhaldsnámi. Nemendur þurfa yfirleitt að hafa lokið einu ári af námi sínu áður en farið er út. Þó eru til undantekningar á því, t.a.m. þurfa laganemar oftast að hafa lokið BA-prófi til að komast í skiptinám.

Hvert er hægt að fara í skiptinám?

Yfirleitt eru háskólarnir með skiptinemasamninga við ákveðna háskóla erlendis. Algengast er að nemendur fari í skiptinám til Evrópu, en einnig eru ágætis möguleikar á að komast í skiptinám til Norður-Ameríku. Stundum er líka hægt að fara í skiptinám til Suður-Ameríku, Ástralíu og Asíu þó það sé vissulega ekki eins algengt.

Hvar er hægt að sækja um styrki fyrir skiptinámi?

Skiptinemar á leið til Evrópu geta farið í gegnum Erasmus stúdentaskipti og þannig lækkað kostnaðinn við skiptinám til muna. Upplýsingar má nálgast á heiasíðunni: www.erasmusplus.is

Hvernig sækir fólk um skiptinám?

Námsráðgjafar háskólanna veita aðstoð við val á námi og landi ásamt frekari upplýsingum um ferlið.  Hjá skrifstofu alþjóðasamskipta í HÍ má finna góðar upplýsingar um skiptinám fyrir íslenska stúdenta.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar