Hvað eru spunaspil?

Spunaspil er tegund af spilum þar sem þátttakendur setja sig í hlutverk annarrar persónu. Spilið gengur síðan yfirleitt út á að leysa hin ýmsu verkefni. Stundum undir stjórn og leiðslu leikjameistara. Spilið fer fram með blöðum og blýöntum en sumir nota einnig teninga og sérstök spilaborð.

VInir, blýantar, blöð og teningar. Hvað getur klikkað?

Tölur á blaði

Fólk getur orðið dálítið hissa þegar það sér spunaspil í framkvæmd í fyrsta skipti. Hvað þýða allar þessar tölur á blaðinu? Tölurnar segja okkur til um eiginleika og færni hverrar persónu í leiknum. Þær segja okkur hve líklegt er að persóna geti tekist á við það sem er framundan.

Hversu líklegt er að persónan mín nái að hoppa yfir ána?

Styrkleikar hverrar persónu eru misjafnir. Sumir eru mjög líkamlega sterkir, aðrir eru kannski með hugvitið en skortir líkamlegan styrkleika. Því skiptir oft töluverðu máli að vinna saman í leiknum. Persónur byrja allar með jafn mörg styrkleikastig sem spilarar fá yfirleitt að dreifa sjálfir á ólíka eiginleika sinnar persónu. Á meðan á leiknum stendur gefst þátttakendum svo stundum tækifæri til að að auka hæfni sína á ákveðnum sviðum. Tölurnar segja okkur þó ekki allt, því að persónusköpunin skiptir líka miklu máli í spilinu.

Persónusköpun

Hlutverkið þitt í spunaspili getur verið dýr, andi, maður eða hvað annað sem þér dettur í hug. Yfirleitt hafa einstaklingar ákveðið frelsi til þess að velja eiginleika þess hlutverks sem þau kjósa. Sumir eyða heilu kvöldunum í að skapa persónu fyrir næsta leik. Persónusköpun gefur fólki algjört frelsi til þess að vera hver sem er. Oftar en ekki lærir fólk mikið af persónunni sinni því spunaspil krefja mann að vissu leyti til þess að sjá hlutina frá sjónarhorni annarra.

Hvað myndi vinsamleg álfkona gera ef fjármunum hennar væri stolið?

Sagan

Spilið er saga með upphafi, miðju og enda. Til eru alls kyns ólíkar útfærslur af RPG heimum og spilareglum. Útfærslurnar eru mis flóknar en það getur verið gott fyrir byrjendur að prófa sig fyrst áfram með einfaldari kerfum. Gott er að hafa með sér einn reyndan aðila í spunaspilum til þess að leiða leikinn. Hann getur þá ákveðið söguna og leitt ykkur í gegnum heim ævintýranna.

Hvar get ég tekið þátt?

Til eru ýmsir hópar á Íslandi sem stunda spunaspil.

  • Einhleypan – D&D samkunda er hópur á Facebook þar sem fólk leitast eftir því að hittast í spunaspilið D&D.
  • Dragon Legion er sameiginlegur vettvangur fyrir spunaspilara í Evrópu. Samtökin fá styrki frá Erasmus+ til þess að senda fólk til útlanda að spila með öðrum þjóðum.
  • Nexus noobs er fyrir fólk á aldrinum 12 – 20 ára en það starf leggur áherslu á félagatengsl og sjálfstyrkingu meðal þátttakenda.
  • Roleplayers á Íslandi er Facebook hópur um flest allt sem tengist spunaspilum hér á landi. Þar er hægt að spyrjast fyrir um það sem er í boði.

Hér á Áttavitanum má finna allskyns hugmyndir um það hvað er hægt að gera í frítímanum sínum.

Heimildir:

Hvað er spunaspil? – Nörd norðursins.

Spunaspil.com þegar hún var og hét

Reynsla höfundar.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar