Hvað er spilafíkn?
Spilafíkn er ekki slæmur ávani, heldur sérstakur sjúkdómur sem flokkast til atferlisfíkna. Fíkn felst í því að ákveðin efni, hlutir eða athafnir fara að stýra hegðun einstaklings. Fíknir geta verið lífshættulegar og er þá ekki aðeins átt við fíknir í efni sem eru skaðleg fyrir líkamann. Fíknir sem snúast um ákveðnar athafnir geta líka leitt fólk til dauða, þar sem þær hafa mikil áhrif á geðslagið, geta valdið miklum sálarkvölum og jafnvel knúið fólk til sjálfsvígs.
Hvernig virkar spilafíkn?
Fólk getur ánetjast fjárhættuspilum af ýmsu tagi, má þar nefna:
- póker og önnur spil þar sem spilað er upp á peninga, hvort sem það er gert á netinu eða í félagsskap við aðra;
- heimsóknir í spilavíti eða á staði þar sem spilakassar eru notaðir;
- veðmál og getraunir, s.s. Lengjan og 1X2;
- þátttaka í happdrættum, t.d. lottó og kaup á skafmiðum.
Fíknin snýst, líkt og aðrar fíknir, um að missa stjórn á hegðun sinni. Þetta er í raun efnafræðilegt, líkt og áfengis- og vímuefnafíkn. Við fjárhættuspilið fara fram efnaskipti í heilanum sem valda nokkurs konar vímu í spennunni sem myndast við að veðja og gleðinni sem framkallast í þau skipti sem fólk vinnur pening. Þessum tilfinningum getur fólk ánetjast.
Hverjar eru afleiðingar spilafíknar?
Ef einstaklingur þjáist af spilafíkn er mikilvægt að hann geri viðeigandi ráðstafanir og leiti sér aðstoðar. Spilafíklar, eins og aðrir fíklar, eru oft í mikilli afneitun um ástand sitt og eru jafnvel sannfærðir um að dag einn muni þeir ná tökum á hegðun sinni. Spilafíkn þróast samt ávallt til hins verra og getur haft gríðarlega slæm áhrif á líf fíkilsins og fólksins í kringum hann.
Spilafíkn getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar
Þær eru meðal annars:
- Aðrar fíknir – Spilafíklar eru mjög líklegir til að nota áfengi, tóbak og önnur vímuefni í miklu magni;
- Samskiptaörðugleikar – Margir spilafíklar eiga það til að einangra sig frá öðrum. Fíknin hefur líka slæm áhrif á alla fjölskylduna, ekki síst maka og börn.
- Ofbeldi – Í samböndum þar sem spilafíkn nær að þrífast er oft mikið um ofbeldi, þar sem mikil spenna og togstreita fylgir samskiptunum;
- Geðsjúkdómar – Spilafíklar þjást gjarnan af mikilli streitu, kvíða, þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum, þar sem mikil spenna og fjárhagsáhyggjur fylgja fíkninni;
- Stórfelld fjármálaóreiða, skuldasöfnun og gjaldþrot – Spilafíkn getur jafnvel leitt fólk inn í vítahring okurlánara eða út í afbrot, til að fjármagna fjárhættuspilið; Spilafíknin getur haft mjög skaðleg fjárhagsleg áhrif á aðstandendur fíkilsins, þar sem þeir gangast oftar en ekki í ábyrgðir fyrir hann og reyna að koma honum til aðstoðar;
- Sjálfsvíg – Þegar einstaklingur er kominn í þrot og sér enga leið út úr spilafíkn sinni og fjárhagsvanda getur það auðveldlega leitt til sjálfsmorðs.
Hvað er til ráða?
Ef einstaklingur þjáist af spilafíkn er mikilvægt að hann geri viðeigandi ráðstafanir og leiti sér aðstoðar. Því fyrr sem hann gerir slíkt, því betra.
- SÁÁ býður upp á meðferð fyrir spilafíkla og aðstoð við aðstandendur þeirra. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa og ræða vandann, án nokkurra skuldbindinga, í síma 530-7600 eða mæta á göngudeildina Von við Efstaleiti 7. Þar eru einnig haldnir fundir á mánudögum og föstudögum. Til að komast í slíkan hóp þarf fyrst að eiga fund með ráðgjafa. Einnig er boðið upp á meðferð við spilafíkn. Slíkar meðferðir fara fram um helgar. Á vef SÁÁ má lesa sér til um spilafíkn og meðferð við henni.
- Samtök áhugafólks um spilafíkn, eða SÁS, voru stofnuð árið 2004 og á heimasíðu þeirra má má lesa sér nánar til um spilafíkn.
- GA-samtökin (e. Gamblers Anonymous) eru 12 spora samtök sem starfrækt eru víða um heim. Þau vinna samkvæmt sömu hugmyndafræði og önnur 12 spora samtök. Á vef samtakanna má finna upplýsingar um fundi. Aðstandendur geta sett sig í samband við SÁÁ eða GA samtökin óski þeir eftir aðstoð. Aðstandendur eru einnig velkomnir á opna fundi sem haldnir eru á föstudögum. Nánar má lesa um þá á vef GA samtakanna.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?