Hvað er matarfíkn?

Matarfíkn, eða ofát, er átröskun sem lýsir sér í mikilli þráhyggju gagnvart mat, eigin líkamsþyngd og því að missa stjórn á neyslu sinni. Hugsanir um mat, át og matseld, hafa truflandi áhrif á daglegt líf og þrá eftir ákveðnum fæðutegundum verður ekki ósvipuð þrá alkóhólistans eftir áfengi. Viðkomandi getur ekki hætt að borða þrátt fyrir að vera orðinn saddur og líða illa.

Hver eru einkenni matarfíknar?

OA-samtökin á Íslandi hafa útbúið sjálfspróf sem á að varpa ljósi á hvort fólk þjáist af matarfíkn. Kannist maður við þrjár eða fleiri spurningar hér að neðan er hætt við maður sé matarfíkill:

 • Borðarðu þegar þú ert ekki svangur/svöng?
 • Borðarðu óhóflega án þess að kunna á því skýringar?
 • Finnurðu til sektar og eftirsjár þegar þú hefur borðað yfir þig?
 • Eyðirðu miklum tíma í að hugsa um mat?
 • Hugsarðu með ánægju og tilhlökkun til þeirrar stundar þegar þú getur borðað einn. Skipuleggurðu leynilegt át fyrirfram?
 • Borðarðu í hófi innan um fólk en bætir þér það upp eftir á?
 • Hefur þyngd áhrif á það hvernig þú lifir lífinu?
 • Hefurðu reynt að fara í megrun í viku eða lengur án þess að ná tilsettu marki?
 • Fer það í taugarnar á þér þegar aðrir segja þér að beita viljastyrk og borða minna?
 • Ertu á þeirri skoðun að þú getir farið í megrun án stuðnings – en innst inni veistu þó betur?
 • Finnurðu sterka löngun til að borða mat á einhverjum tilteknum tíma sólarhringsins sem ekki er matmálstími?
 • Borðarðu til að flýja áhyggjur og vandræði?
 • Hefurðu leitað meðferðar vegna ofáts eða vanda sem tengist mat?
 • Valda átsiðir þínir þér og/eða öðrum óhamingju?

Hver eru áhrif matarfíknar?

Matarfíkn leiðir oftar en ekki til mikillar þyngdaraukningar og getur þar af leiðandi valdið miklum þjáningum. Þetta ástand getur jafnvel orðið til þess að einstaklingurinn þróar með sér aðrar átraskanir; anorexíu eða búlimíu. Fólk fer út í óheilbrigða hegðun varðandi mat eins og að framkalla uppköst, svelta sig og fara í stranga megrunarkúra.

Hvar getur fólk leitað sér aðstoðar vegna matarfíknar?

Þó nokkrir aðilar geta hjálpað fólki sem þjáist af matarfíkn.

 • OA samtökin (Overeater Anonymous) eru 12 spora samtök matarfíkla sem í sameiningu reyna að vinna bug á fíkn sinni og lifa heilbrigðu og eðlilegu lífi. Á vef OA samtakanna á Íslandi má nálgast upplýsingar um fundi.
 • Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna í sínu hverfi til að fá greiningu og ráðleggingar um meðferð.
 • Hægt er að mæta án þess að panta tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, milli klukkan 12 og 19 alla virka daga, og spjalla við fagaðila. Einnig er hægt að panta viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi, en það kostar 4.688 krónur. Síminn á Landspítalanum er 543-1000.
 • MFM Miðstöðin veitir fræðslu um átraskanir.
 • Sumir matarfíklar hafa náð góðum árangri með aðstoð næringarfræðinga og einkaþjálfara, með því að fá dyggan stuðning í að breyta um lífsstíl.
 • Almenn sálfræðimeðferð getur einnig hjálpað til að vinna úr undirliggjandi vandamálum, sem oft valda fíknhegðun.

 

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar