Hvað er alkóhólismi?

Alkóhólismi er sjúkdómur sem hefur áhrif á líkamann, geðheilsuna og persónuleikann. Hann elur af sér þráhyggju, fíkn, stjórnleysi og afneitun hjá þeim sem veikjast. Orðið alkóhólisti er einnig notað yfir þá sem eru háðir öðrum vímuefnum en alkóhóli. Alkóhólismi lýsir sér oftast í sterkri löngun í áfengi eða aðra vímugjafa og stjórnleysi í neyslunni.  Alkóhólismi felur í sér breytingar á heilastarfsemi og versnar alltaf með áframhaldandi neyslu. Alkóhólismi hefur mjög skaðleg líkamleg áhrif, en hann hefur einnig áhrif á fjölskyldulíf, félagslíf, atvinnu og fjármál og endar oftar en ekki með félagslegri einangrun, geðveiki eða dauða sé ekki tekið í taumana. Alkóhólisma er ekki hægt að lækna, en hægt er að lifa mjög góðu lífi með sjúkdómnum sé farið í algjört bindindi og samtímis því lögð stund á andlega sjálfsrækt.

Hvenær er áfengisneysla orðin of mikil?

Erfitt er að segja til um hvað er of mikil drykkja. Slíkt verður hver og einn að gera upp við sig sjálfur. Flestir eru þó sammála um að drykkja sé orðin of mikil þegar hún er farin að hafa slæm áhrif á líkama og sál og valda félagslegu og fjárhagslegu tjóni. Talað er um dagdrykkju ef einstaklingur neytir áfengis fjóra daga vikunnar og fólk sem gerir slíkt ætti a.m.k. að setja spurningamerki við áfengisnotkun sína.

Á heimasíðu SÁÁ má nálgast sjálfspróf varðandi áfengisneyslu. Þau má vel nota ef fólk vill kanna hvort það þurfi að endurskoða áfengisnotkun sína.

Hvert skal leita ef maður glímir við áfengis- eða vímuefnavanda?

Ef fólk vill gera eitthvað í sínum málum er hægt er að setja sig í samband við SÁÁ með því að hringja í síma 530-7600. Í því númeri er einnig hægt að panta meðferð á Vogi eða tíma á göngudeildinni. Einnig er hægt að setja sig í samband við AA samtökin á Íslandi; á heimasíðu samtakanna má finna lista yfir AA-fundi en starfræktir eru yfir 250 slíkir fundir í viku víðsvegar um landið. Einu inngönguskilyrðin eru löngun til að hætta að drekka, eða hætta í neyslu.

  • Neyðarsími AA samtakanna í Reykjavík er 895-1050.
  • Neyðarsími AA samtakanna á Akureyri er 849-4012.

Hvert skal leita ef einhver nákominn á við áfengis- eða vímuefnavanda að etja?

Þegar nákominn ættingi eða ástvinur á við alkóhólisma eða fíkn að stríða getur það haft mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem eru honum nákomnir. Mikil hætta er á að aðstandendur alkóhólista og fíkla ali með sér meðvirkni. SÁÁ veitir einnig upplýsingar og ráðgjöf til aðstandenda. Hægt er að setja sig í samband við SÁÁ í síma 530-7600 og ræða þau úrræði sem standa til boða.

Hversu algengur er alkóhólismi?

Alkóhólismi er nokkuð algengur. Talið er að allt að 20% Íslendinga séu alkóhólistar. Aðeins um 3-5% alkóhólista eru rónar og útigangsfólk. Alkóhólismi getur lagst á fólk af báðum kynjum, í öllum störfum og stéttum og á öllum aldursskeiðum. Fólk getur fæðst með sjúkdóminn en það getur einnig veikst af honum síðar á ævinni, jafnvel þótt það hafi aldrei áður átt í vanda með áfengisneyslu. Rannsóknir benda til að alkóhólismi sé að einhverju leyti arfgengur sjúkdómur.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar