Hvað er heróín?

Heróín er róandi efni sem unnið er úr ópíumi. Heróín er líkt mörgum vægari verkjalyfjum, svo sem morfíni og parkódíni, en þau eru einnig gerð úr ópíumi og nefnast kódein-lyf. Ópíumið sjálft er unnið úr blómum valmúans. Heróín er álitið eitt mest ávanabindandi vímuefni sem þekkt er og eitt það hættulegasta. Stærstur hluti heróíns í heiminum er framleiddur í Miðausturlöndum, Mið-Ameríku og Suðaustur-Asíu.

Hvaða áhrif hefur heróín?

Áhrif heróíns koma snöggt fram og vara lengi. Þauná fljótt hámarki og endast síðan í 2 til 10 tíma. Áhrif heróíns eru sem hér segir:
  • Víma og gervivellíðan.
  • Hlýja og alger slökunartilfinning
  • Alsæla.
  • Aukinn metnaður, þrátt fyrir minni framkvæmdagetu.
  • Andlegur og líkamlegur sársauki minnkar eða hverfur.
Stórir skammtar geta hinsvegar valdið vanlíðan: svima, ógleði, lystarleysi, munnþurrki, hægðatregðu, ofsakláða, oföndun, krömpum eða skjálftum í vöðvum, sturlun og öðrum geðrænum vandamálum. 

Hvernig er heróín tekið inn?

Heróín er yfirleitt tekið í nös eða brætt og sprautað í æð. Einnig reykja sumir heróín.

Er heróín hættulegt?

Já, það er mjög hættulegt. Heróínneytandi er mjög fljótur að byggja upp þol gegn lyfinu og þarf því stöðugt stærri skammta til að komast í vímu. Langvarandi heróínneysla hefur gífurleg áhrif á neytendann, bæði andlega og líkamlega. Heróín hefur skemmandi áhrif á hjarta og lifur, auk þess sem óhreinar eða notaðar sprautunálar geta borið alvarlega sjúkdóma á borð við lifrarbólgu og alnæmi.

Er hægt að taka inn of stóran skammt af heróíni?

Já, það er hægt að taka inn of stóran skammt og ofneysla er tiltölulega algeng. Sumir neytendur eru mun viðkvæmari en aðrir en engin leið er að meta næmni viðkomandi fyrirfram.

Er heróín ávanabindandi?

Heróín er eitt mest ávanabindandi vímuefni sem þekkt er. Heróínfíkn ágerist mjög hratt og fíkillinn þarf sífellt meira til að fullnægja fíkninni. Fráhvarfseinkenni heróíns eru mjög slæm, en meðal þeirra eru kaldur sviti, vöðvakrampar, ógleði, óstjórnlegur niðurgangur, beinverkir, svefnleysi og andleg vanlíðan. Fráhvörf geta dregið heróínfíkla til dauða.

Hvernig lítur heróín út?

Heróín er hvítt eða brúnleitt duft, sem kemur stundum fyrir í kögglum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar