Hvað er amfetamín?

Amfetamín, eða spítt, er kemískt fíkniefni (þ.e. ónáttúrulegt efni) sem hefur verið eitt mest notaða eiturlyfið í Evrópu síðan á 7. áratug síðustu aldar. Það hefur örvandi áhrif á þann sem tekur það og slær á þreytu. Amfetamín er ólöglegt fíkniefni á Íslandi og varðar eign á efninu við lög.

Hvaða áhrif hefur amfetamín?

Amfetamín er örvandi efni; fólki líður sem það sé minna þreytt og geti einbeitt sér betur. Það slær á matarlyst og veldur tímabundinni vellíðan og vímu. Það eykur úthald og þrek við vöðvavinnu. Fólki líður gjarnan eins og það eigi auðveldara með alla rökhugsun. Raunin er hinsvegar hið þveröfuga og neyslan getur valdið dómgreindarbresti. Neysla á spítti getur líka valdið vanlíðan: kvíða, óróleika, ranghugmyndum og jafnvel ofsóknarbrjálæði. Þegar áhrifin fara að dvína tekur við mikil þreyta og þunglyndi.

Hvernig er amfetamín tekið inn?

Amfetamín er ýmist sogið upp í nef, tekið í pilluformi, sprautað beint í æð eða reykt.

Er amfetamín hættulegt?

Í stuttu máli, já. Amfetamínnotkun fylgir mikið álag á hjarta og æðakerfið og langtímanotkun getur valdið því að annaðhvort hreinlega gefi sig. Við langtímanotkun virðist amfetamín einnig skemma taugaenda og fá því notendur oft skjálfta, svipaðan og Parkinson sjúklingar fá. Amfetamín getur valdið þunglyndi og mögulega ýtt undir undirliggjandi geðsjúkdóma á borð við geðklofa.

Er hægt að taka inn of stóran skammt af amfetamíni?

Það er mjög óalgengt að neytendur taki svo stóra skammta að þeir valdi dauða og er þá dauðinn oftar tengdur heilablæðingu, hjartaslagi eða ýmsum krömpum. Hinsvegar er algengt að neytendur taki of stóra skammta en bíði þó ekki bana af. Það veldur þá t.a.m. örari hjartslætti, hækkun á blóðþrýstingi, útþenslu sjáaldra, höfuðverkjum, uppköstum, krömpum, hita og blæðingu úr nefi.

Er amfetamín ávanabindandi?

Já, amfetamín er ávanabindandi. Fráhvarfseinkenni eru t.a.m. langvarandi og órólegur svefn, deyfð og alvarlegt þunglyndi (þar sem sjálfsvígshugmyndir eru ekki óalgengar), auk áráttukenndrar löngunar í meira af efninu.

Hvernig lítur amfetamín út?

Amfetamín er hvítt duft. Stundum fæst það í pilluformi.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar