Hvað er e-pilla?

E-pillan er kemískt (þ.e. ónáttúrulegt), örvandi lyf sem veldur ofskynjunum. Virka efnið í e-töflu nefnist MDMA (methylendioxymetamfetamin) og er náskylt amfetamíni.

Hvaða áhrif hefur e-pilla?

Áhrifin koma fram hálftíma til klukkustund eftir inntöku pillunnar. Þau vara í 4 til 6 tíma. Dæmigerð áhrif eru:

  • víma, vellíðan og alsæla;
  • aukið sjálfsmat og sjálfstraust;
  • blaður, ásamt tilfinningu af samkennd eða ást til annarra;
  • minni matarlyst, aukið þol, hærri blóðþrýstingur og hraðari hjartsláttur;
  • skyntruflanir og ofskynjanir.
  • Neytandi finnur þörf til að hreyfa sig eða á erfitt með að vera kyrr.
  • Sumir neytendur finna fyrir meiri snertiþörf þar sem upplifun af snertingu er almennt ánægjulegri og meiri.
  • Önnur einkenni geta verið vöðvakrampar og ósjálfráður gnístran tanna.

Hvernig er e-pilla tekin inn?

E-töflur er gleyptar eins og hver önnur lyf.

Eru e-pillur hættulegar?

Já, e-pillan getur verið lífshættuleg. Fólk hefur dáið úr eitrunum sem má rekja til efna í e-pillum. Stöku sinnum koma fram alvarlegir líkamlegir fylgikvillar, s.s. ofhitnun, alvarleg hækkun á blóðþrýstingi sem leiðir til blæðingar í heila, aukinn hjartsláttur með hættu á hjartsláttartruflunum eða hjartastoppi, nýrnabilanir, blóðstorknun í æðum og lifrarskemmdir. Einnig getur efnið leitt til geðtruflana eins og kvíða, þunglyndis og ofsóknaræðis og sturlunar. Dýratilraunir hafa sýnt að háir eða endurteknir MDMA-skammtar leiða til sköddunar á taugum.

Er hægt að taka inn of stóran skammt af e-töflum?

Já, fólk hefur látist úr of stórum skammti af e-pillum.

Eru e-töflur ávanabindandi?

Já, e-pillan er sambærilega ávanabindandi og önnur örvandi efni eins og amfetamín og kókaín. Margir hætta á e-töflunni og leiðast út í amfetamínnotkun.

Hvernig lítur e-pilla út?

E-pillur koma í ýmsum formum og litum og oftar en ekki eru þær myndskreyttar á einhvern hátt. Yfirleitt eru þetta fremur litlar töflur sem auðvelt er að innbyrða í gegnum munn.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar