Hvað er kókaín?

Kókaín er örvandi efni sem unnið er úr laufblöðum kókajurtarinnar. Það er álitið mest andlega ávanabindandi vímuefnið sem þekkt er. Stærstur hluti kókaíns í heiminum er framleiddur í Suður-Ameríku.

Hvaða áhrif hefur kókaín?

Áhrif kókaíns koma snöggt fram og vara fremur stutt. Áhrifin ná hámarki eftir 15 til 30 mínútur eftir inntöku en eru að mestu horfin eftir klukkustund. Áhrif kókaíns eru sem hér segir:

  • málgefni, æsingur og eirðarleysi;
  • aukin starfsemi vöðvakerfisins og hitamyndun;
  • bæling á hungurtilfinningu, útvíkkun sjáaldra, aukinn öndunarhraði og auknar vöðvahreyfingar;
  • örvun miðtaugakerfisins. Þetta kemur fram í aukinni skerpu og viðbragðsstöðu;
  • meiri andleg og líkamleg orka;
  • víma og gervivellíðan;
  • aukið sjálfstraust. Dómgreindarbrestur og aukið þor til að taka áhættu.

Of stórir skammtar geta hinsvegar valdið vanlíðan; svima, ógleði, lystarleysi, höfuðverkjum, krömpum eða skjálftum í vöðvum og óskýrri sjón. Geðtruflanir geta fylgt þessu, s.s. að neytendur upplifi ýmist hálfgerða maníu, vanlíðan eða fái ranghugmyndir og ofsóknaræði. Fólk getur ofhitnað, fengið hættuleg krampaköst og óeðlilegan hjartslátt.

Hvernig er kókaín tekið inn?

Kókaín er yfirleitt tekið í nefið í formi dufts. Þó er bæði hægt að reykja það og sprauta því beint í æð.

Er kókaín hættulegt?

Í stuttu máli, já. Langvarandi kókaínneysla hefur gífurleg áhrif á neytandann, þá bæði andlega og líkamlega. Þunglyndi og „kókaín-geðveiki“ eru dæmi um andlegar aukaverkanir.

 Kókaín hefur líka mikil áhrif á hjarta og æðakerfi og eykst hætta á hjartastoppi og -áfalli mjög.

Er hægt að taka inn of stóran skammt af kókaíni?

Já, það er hægt að taka inn of stóran skammt en ofneysla er hinsvegar fremur sjaldgæf. Einstakur skammtur af kókaíni, 1 til 2 grömm, getur verið banvænn. Sumir neytendur eru mun viðkvæmari en aðrir en engin leið er að meta næmi viðkomandi fyrirfram.

Er kókaín ávanabindandi?

Ekki er talið að kókaín sé mjög líkamlega ávanabindandi. Hins vegar er engin spurning um að það mjög ávanabindandi andlega. Fólk grennist stundum í upphafi kókaínneyslu en eftir smá tíma fer það að fitna af henni. Tilraunir hafa sýnt að kókaín er eitt af fáum eiturlyfjum sem dýr taka fram yfir fæðu og vatn og halda áfram að neyta þar til þau detta niður dauð hafi þau óheftan aðgang að því.

Hvernig lítur kókaín út?

Kókaín er hvítt duft, ekki svo ólíkt flórsykri eða kartöflumjöli.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar