Kannabisefni sem innihalda (THC) eru yfirleitt í eftirfarandi formi: gras, hass og hassolía.
Kannabisefni eru efni unnin úr kannabisplöntunni (Cannabis sativa). Skipta má kannabisefnum í þrjá meginflokka; gras, hass og hassolíu. Gras er þurrkuð afurð plöntunnar, hass er unnið úr ögnum eða kristöllum sem finnast á plöntunni og hassolía er fita sem búið er að binda við virka efni plöntunnar (þ.e. THC). Kannabisefni sem innihalda THC eru ólögleg hér á landi og öll meðhöndlun þeirra er refsiverð.
Hvaða áhrif hafa kannabisefni?
Áhrif kannabisefna velta á því magni sem neytt er, persónuleika neytandans, umhverfinu og væntingum hans til neyslunnar.
- Neytandinn fyllist vímu eða alsælu. Finnst sem hann sé í draumkenndu ástandi.
- Hann fyllist ró og vellíðan.
- Ef neytandinn er einn virðist hann oft sljór og syfjaður.
- Ef hann er í góðum félagsskap hlær hann og virðist kátur.
- Tímaskyn getur brenglast þannig að tími virðist líða mun hægar.
- Neytandinn verður oft mjög næmur á tónlist, mat og myndræna upplifun.
- Neytandi verður innhverfur: Djúpt hugsi eða fer í mikla sjálfsskoðun.
- Hraður hjartsláttur og þurrkur í augum, munni og nefi. Lítilsháttar óþægindi í öndunarfærum gera oft vart við sig.
- Stundum finnur fólk fyrir svima, doða í útlimum eða andliti, skjálfta í höndum og það svitnar.
Við stærri skammta ber meira á brenglun í skynjun.
- Hlutir geta þá í umhverfi neytandans tekið á sig annað form.
- Fjarlægðarskyn brenglast.
- Neytandi fær ofskynjanir.
- Neytandi finnur fyrir ofsahræðslu, ofsóknarbrjálæði og/eða kvíðaköstum.
- Stundum upplifir fólk mikil líkamleg óþægindi, flökurleika og mikinn hita – þetta er kallað að „koxa“ eða fá hvítuna. Oft gerist þetta þegar neyslu kannabisefna er blandað saman við áfengisneyslu.
Hvernig eru kannabisefni tekin inn?
Kannabisefni eru iðulega reykt; ýmist blönduð í tóbak eða hrein. Oft eru notuð tól til neyslunnar, s.s. pípur, vatnspípur eða beyglaðar gosflöskur. Oft er efnunum vafið upp í heimagerðar sígarettur (þ.e. jónur). Stundum eru kannabisefni borðuð, þá oft í kökum eða sætabrauði, og er þá talað um hasskökur.
Er hægt að taka inn of stóran skammt?
Nei. Dauðaskammtur kannabisefna er það hár að næstum útilokað er að ná honum með reykingum. Hinsvegar getur fólk orðið veikt af of stórum skammti. Það veldur þá uppköstum, svima, svita, meðvitundarleysi og stundum ofskynjunum. Öll víma veldur aukinni slysahættu og getur þannig verið banvæn.
Eru kannabisefni hættuleg?
Langtímaneysla á kannabisefnum getur reynst mjög skaðleg fyrir neytandann. Geðrænar raskanir og sálrænar truflanir eru oft fylgifiskar neyslu kannabisefna, má þar nefna þunglyndi, geðklofa, ofsóknaræði, vænisýki og félagsfælni. Þessi einkenni geta leitt til vistunar á stofnun. Sumum er hættara en öðrum við að þróa með sér þessi einkenni, en því miður er engin leið til að greina fólk í áhættuhópum fyrirfram. Eins hefur mikil neysla kannabisefna neikvæð áhrif á lang- og skammtímaminni fólks. Hefjist kannabisneysla á unglingsárum verða áhrifin enn skaðlegri og geta komið fram í skertum þroska og náms- og tjáningargetu. Þeir sem reykja kannabis eru í mun meiri hættu á að fá ýmiskonar lungna- og öndunarfærasjúkdóma. Mikil neysla dregur úr hormónastarfsemi beggja kynja og getur í verstu tilfellum valdið ófrjósemi.
Eru kannabisefni ávanabindandi?
Líkamleg ávanabinding kannabisefna er frekar lítil. Kannabis er hinsvegar oft blandað við tóbak og nikótín sem er mjög líkamlega ávanabindandi. Sálræn ávanabinding kannabis getur verið ákaflega misjöfn eftir neytendum og margir geta orðið illa háðir mjög fljótt. Meirihluti lækna og meðferðafulltrúa er á þeirri skoðun að erfiðara sé að fá kannabisneytendur til að láta af neyslu sinni en aðra vímuefnaneytendur.
Hvernig líta kannabisefni út?
Gras minnir á þurrkaðar kryddjurtir: Það er grænt eða grænbrúnt á lit og þurrt viðkomu. Hass minnir á kjöttening; brúnt á lit og fremur hart viðkomu. Hassolía er fljótandi vökvi, ekki ólíkur sýrópi.
CBD og lyfjahampur
Kannabis er plöntutegundin sem öll afbrigði hampplöntunnar koma frá og innihalda blóm hennar yfir hundrað ólíkra kannabínóða, THC og CBD eru þeirra þekktastir.
CBD er ólíkt THC að því leyti að það veldur ekki vímu og er þar af leiðandi ekki talið jafn skaðlegt þeim sem þess neyta.
Undanfarin ár hefur umræðan um nytsemi jurtarinnar í læknigaskyni farið vaxandi og rannsóknir á efninu hafa sýnt fram notagildi þess meðal ananrs í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum. Lyfjahampur er þannig heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi.
Nýlega gerði alþingi breytingu á reglugerð sem heimilar innflutning á hampfræjum og ræktun á iðnarhampi og munu málefni þess flytjast frá Lyfjastofnun og til Matvælastofnunnar.
- Í bækling á vegum Landlæknis má finna ítarlegar upplýsingar um kannabis og kannabisneyslu.
- Mynd er fengin af wikipedia
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?