Fíkn eða ávanabinding er þegar einstaklingur ánetjast efni (t.d. nikótíni, koffíni eða áfengi) eða ákveðinni hegðun (t.d. fjárhættuspili, kynlífi eða tölvunotkun) þannig það hafi áhrif á daglegar athafnir, t.d. vinnu, sambönd eða heilsu.  Almennt talað um tvær tegundir fíknar, það er:

 • líkamleg fíkn í efni, t.d. tóbak og,
 • andleg fíkn (atferli) sem er lærð hegðun eða ávani, t.d. tölvufíkn og fjárhættuspil.

Í báðum tilfellum er eitthver hvati, líkamlegur eða andlegur, sem tekur yfir sjálfstjórn einstaklingsins. Atferlið (fíknin) þróast yfirleitt smám saman og hefur oftast neikvæð áhrif geðlega, andlega, tilfinningalega, félagslega og líkamlega.

Vísbendingar um fíkn

Settar hafa verið fram sex vísbendingar sem hjálpa til við að greina hvort um fíkn sé að ræða.

 1. Fyrirbærið sem löngunin snýst um, hvort sem það er áfengi, matur, spilakassar, klám, kynlíf eða hvaðeina, vekur þráhyggjuhugsanir og veldur áráttu.
 2. Fíkillinn er heltekinn af því sem fíkn hans snýst um.
 3. Hegðun fíkilsins snýst fyrst og fremst um að svala löngun sinni og fullnægja þörfum sínum.
 4. Löngunin einkennist af stjórnleysi. Hugsanir, tilfinningar, hugmyndir og hegðun fíkilsins eru órökréttar og stjórnlausar í sambandi við allt er snýr að fíkninni. Jafnvel þegar hann reynir að hætta, mistekst honum. Það er eitt aðaleinkenni vanabindingar.
 5. Fíkillinn er háður, líkamlega og/eða andlega og einungis það efni eða hegðun sem hann sækir í getur fullnægt honum þó slík fullnægja sé aðeins tímabundin.
 6. Fíknin leiðir alltaf til niðurrifs og hefur neikvæðar afleiðingar.

Mikilvægt þó að hafa í huga að þegar talað er um fíkn, að orsök hennar er ekki einungis vegna löngunar einstaklings í skemmtun eða vellíðan og að fíkn hefur ekkert með siðferði eða persónulegan þroska að gera. Þvert á móti er fíkn yfirleitt afleiðing þess að einstaklingur stendur illa andlega. Því er mikilvægt að skilja undirliggjandi andlegt ástand til að takast á við fíkn.

Þrátt fyrir að mikið sé vitað um fíkn, þá er fyrirbærið flókið og sérfræðingar deila um hvort fíkn sé líkamlegur sjúkdómur eða í raun andleg veikindi (geðsjúkdómur).

Meðferð við fíkn

Við fíkn eru margs konar meðferðir og fjöldi einstaklinga hefur unnið sig úr fíkn. Þó eru meðferðir mismunandi eftir eðli fíknar. Hér er listi sem vísar á helstu aðila sem aðstoða með að vinna bug á fíkn.

Aðstandendur fíkla

Það getur tekið á aðstandendur fíkla og margir verða meðvirkir og/eða finna til annars konar vanlíðan. Aðstandendur geta leitað til

 • Al-Anon samtakana sem vinna eftir 12-spora kerfi, á sama hátt og AA samtökin. Samtökin leitast við að hjálpa fólki að vinna í erfiðum samböndum og samskiptum og bæta sjálfstraust og líf þess.
 • Einnig geta aðstandendur leitað til SÁÁ þar sem veitt er fjölskyldumeðferð og boðið upp á vikulega stuðningshópa

Spilafíkn

Ef einstaklingur þjáist af spilafíkn er mikilvægt að hann geri viðeigandi ráðstafanir og leiti sér aðstoðar. Því fyrr sem hann gerir slíkt, því betra.

 • SÁÁ býður upp á meðferð fyrir spilafíkla og aðstoð við aðstandendur þeirra. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa og ræða vandann, án nokkurra skuldbindinga, í síma 530-7600 eða mæta á göngudeildina Von við Efstaleiti 7. Þar eru einnig haldnir fundir á mánudögum og föstudögum. Til að komast í slíkan hóp þarf fyrst að eiga fund með ráðgjafa. Einnig er boðið upp á meðferð við spilafíkn. Slíkar meðferðir fara fram um helgar. Á vef SÁÁ má lesa sér til um spilafíkn og meðferð við henni.
 • Samtök áhugafólks um spilafíkn, eða SÁS, voru stofnuð árið 2004 og á heimasíðu þeirra má lesa sér nánar til um spilafíkn.
 • GA-samtökin (e. Gamblers Anonymous) eru 12-spora samtök sem starfrækt eru víða um heim. Þau vinna samkvæmt sömu hugmyndafræði og önnur 12-spora samtök. Á vef samtakanna má finna upplýsingar um fundi. Aðstandendur geta sett sig í samband við SÁÁ eða GA samtökin óski þeir eftir aðstoð. Aðstandendur eru einnig velkomnir á opna fundi sem haldnir eru á föstudögum. Nánar má lesa um þá á vef GA samtakanna.

Áfengi og vímuefni

Ef fólk vill gera eitthvað í sínum málum er hægt er að setja sig í samband við SÁÁ með því að hringja í síma 530-7600. Í því númeri er einnig hægt að panta meðferð á Vogi eða tíma á göngudeildinni. Einnig er hægt að setja sig í samband við AA samtökin á Íslandi; á heimasíðu samtakanna má finna lista yfir AA-fundi en starfræktir eru yfir 250 slíkir fundir í viku víðsvegar um landið. Einu inngönguskilyrðin eru löngun til að hætta að drekka, eða hætta í neyslu.

 • Neyðarsími AA samtakanna í Reykjavík er 895-1050.
 • Neyðarsími AA samtakanna á Akureyri er 849-4012.

Matarfíknar?

Þó nokkrir aðilar geta hjálpað fólki sem þjáist af matarfíkn.

 • OA samtökin (Overeater Anonymous) eru 12 spora samtök matarfíkla sem í sameiningu reyna að vinna bug á fíkn sinni og lifa heilbrigðu og eðlilegu lífi. Á vef OA samtakanna á Íslandi má nálgast upplýsingar um fundi.
 • Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna í sínu hverfi til að fá greiningu og ráðleggingar um meðferð.
 • Hægt er að mæta án þess að panta tíma á göngudeild geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, milli klukkan 12 og 19 alla virka daga, og spjalla við fagaðila. Einnig er hægt að panta viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi, en það kostar 4.688 krónur. Síminn á Landspítalanum er 543-1000.
 • MFM Miðstöðin veitir fræðslu um átraskanir.
 • Sumir matarfíklar hafa náð góðum árangri með aðstoð næringarfræðinga og einkaþjálfara, með því að fá dyggan stuðning í að breyta um lífsstíl.
 • Almenn sálfræðimeðferð getur einnig hjálpað til að vinna úr undirliggjandi vandamálum, sem oft valda fíknhegðun.

Heimildir:

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar