Naturismi er þegar einstaklingar eða hópar stunda það að vera nakið innan heimilis eða á opinberum vettvangi þar sem nekt er leyfileg.

Margir lifa í þeirri trú að nekt ýti undir kynferðislega hegðun og langanir en eins og með allt annað er staður og stund fyrir slíkt. Naturistar stunda auðvitað ekkert skírlífi en eru heldur ekki spangólandi yfir öllum nöktu kroppunum í kringum sig.

Naturistar tala um félagslega nekt, en það þýðir einfaldlega að vera nakinn í hinum ýmsu félagslegu aðstæðum. Fyrir marga er þetta ekki einungis að eiga ánægjulegar stundir og kynnast nýju fólki sem deilir sömu lífsspeki, heldur snýst þetta einnig um að finna fyrir frelsinu og ótrúlegt en satt þá ýtir nektin undir jákvæða líkamsmynd.

Ein helsta ástæða þess að naturistar stunda slíka félagslega nekt er tilfinningin við að vera samþykktur, það lítur enginn niður á líkama þinn eða kemur illa fram við þig vegna þess að þú fellur ekki undir einhvern ákveðinn hatt. Naturistar bera mikla virðingu fyrir umhverfi sínu, öðru fólki og sjálfum sér. Þau einblína á heilsusamlegan lífsstíl, næringaríka fæðu, lítið er um neyslu áfengis og tóbaks og flestir stunda reglulega hreyfingu og hugleiðslu. Ávinningurinn liggur svo í að ná og viðhalda líkamlegu og andlegu heilbrigði.

Hvar halda naturistar sig?

Þar sem það er ekki félagslega samþykkt að leyfa svo mikla nekt á almannafæri eru til afmarkaðir staðir líkt og strendur og garðar þar sem fólk nýtur þess frelsis að fletta sig klæðum. Ógrynni af fólki allsstaðar í heiminum aðhyllist þennan lífsstíl og eru því margir viðburðir í boði fyrir þau. Afþreyingarnar eru fjölbreyttar og má þar nefna dagsferðir þar sem hópurinn hittist á nektarströnd, í görðum, sundi, heimapartý, siglingum o.fl. Einnig er farið í helgarferðir á staði þar sem nekt er leyfileg eða undanþága gefin, t.d. útilegur og svo eru til ýmsar áhugaverðar nektarhátíðir.

Talið er að mikil gleði fylgi þessu frelsi og upplifunin á náttúrunni verður mun sterkari þegar fötin fá að fjúka og hefur því lengi verið haldið fram að fólk þyrfti að komast betur í tengsl við náttúruna, sólarljós, vatn og hreint loft í annað hvort litlum eða engum fötum sér til heilsubóta.

Fyrir hvern?

Þetta er mjög fjölbreyttur hópur, fjölskyldur, pör, einstaklingar, eldri borgarar, unglingar og þar fram eftir götunum. Sumir fæðast inn í þessi samfélög og aðrir heillast af menningunni og láta slag standa. Ýmsar ástæður liggja á bakvið afhverju fólk tekur þátt í þessari félagslegu nekt. Sumir heimsækja nektarstrendur vegna forvitni og finna fyrir ákveðnu samþykki, allir eru velkomnir og í mörgum tilfellum er ekki aftur snúið. Sumir trúa því að nekt geri fólk heiðarlegra sem ýtir undir sterkari vinasambönd. Rökin sem færð eru fyrir því er að það getur reynst erfitt að vera falskur þegar manneskjan er svona berskjölduð.

Naturismi er einkar áhugaverður lífsstíll því þar er svo sannarlega fagnað fjölbreytileikanum og staðið saman gegn fordómum annarra. Allir eru jafnir innan hópsins og því meiri fjölbreytileiki, því betra!

Heimildir:

History of nudism
The Naturist Society
Young Naturists America
Social Nudism
What is Nudism?

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar