Hvað er frjálshyggja?

Eins og gildir um flest hugtök yfir hugmyndafræði í stjórnmálum eru ekki allir á eitt sáttir um hvernig beri að skilgreina frjálshyggju. Eftirfarandi er þó hófleg tilraun til þess að varpa ljósi á hugtakið án þess að valda of miklu fjaðrafoki.

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar gengur í grunninn út á að allir menn séu skapaðir frjálsir og hafi náttúrulegan rétt til lífs, frelsis og eigna á sjálfum sér og þeim verðmætum sem þeir skapa.

Hún var upphaflega sett fram í upplýsingu og lýðræðisbyltingum 18. aldarinnar af hugsuðum á borð við John Locke, Adam Smith og franska og bandaríska byltingamenn og hafa kenningar þeirra síðar verið nefndar „klassísk frjálshyggja“.

Hvað einkennir klassíska frjálshyggju?

Út frá hugmyndum um náttúruleg réttindi og frelsi einstaklinga gerðu frjálshyggjumenn 18. og 19. aldar kröfu um viss grundvallarmannréttindi allra einstaklinga; skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, athafnafrelsi og lýðræði.

Markaðsfrelsi var auk þess talið vera hluti almennra frelsisréttinda en var líka stutt með kenningum Adam Smith, David Ricardo og fleiri hagfræðinga um að það væri skynsamlegasta leiðin til að þess auka velferð og hagvöxt í samfélaginu.

Lýðræði og dreifing ríkisvaldsins var sömuleiðis talin nauðsynleg forsenda þess að takmarka skerðingu ríkisins á þessum réttindum íbúanna; ríkið átti ekki að hafa vald yfir íbúum heldur að sækja vald sitt til þeirra. Í þessum skilningi gæti ríkið aðeins haft lögmæti sem sáttmáli frjálsra manna og ef ríkið bryti á þeim sáttmála höfðu íbúarnir rétt og jafnvel skyldu til þess að gera uppreisn gegn því.

Þessi grunngildi frjálshyggjunnar um mannréttindi, einstaklingsfrelsi, lýðræði og jafnræði hafa síðan hlotið nokkuð almenna hylli í a.m.k. hinum vestræna heimi og hefur síðar verið nefnd „klassísk frjálshyggja“ til aðgreiningar frá seinni tíma og umdeildari útgáfum hennar.

Félagsleg frjálshyggja (e. egalitarian liberalism) og ný-frjálshyggja (e. neo-liberalism) eru dæmi um helstu anga frjálshyggjunnar nú á dögum. Þær eru ekki endilega andstæður og stangast ekki beinlínis á við frjálshyggjuna, heldur er líklega best að lýsa þeim sem ólíkum útfærslum á grunnhugmyndum hennar.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar