Fasismi var þjóðernisstefna sem spratt upp í evrópskum stjórnmálum 20. aldar með hinn ítalska Benito Mussolini og hinn spænska Fransisco Franco í fararbroddi.
Fasismi sameinaði rómantíska þjóðernishyggju um sameiningu þjóðarinnar gegn útlendingum við mikla leiðtogadýrkun og sterkt, miðstýrt ríkisvald.
Í fasistaríkjum var leiðtoginn dýrkaður sem holdgervingur þjóðarinnar og hafði hann allt vald ríkisins í höndum sér. Náði það vald til flestra anga samfélagsins og andstaða gegn ríkinu og stefnu þess var ekki liðin. Agi, einsleitni og áróður á vegum ríkisins var eitt helsta einkenni þessara samfélaga.
Þjóðernishyggja fasismans hefur auk þess haft í för með sér að útlendingar eru ofsóttir eða a.m.k. litnir hornauga.
Ætlunin var að fylkja upphafinni þjóð að baki leiðtoganum og jafnvel stunduðu fasistar svokallaða kynbótastefnu; þar sem reynt var að útrýma „óæðri“ kynþáttum og einstaklingum úr hópnum. Það róttæka afbrigði þjóðernishyggju fasismans er einnig betur þekkt sem nasismi.
Í síðari tíð hefur hugtakið fasismi þó verið notað í víðari merkingu í daglegu tali. Þá er það jafnan notað yfir hvers kyns valdníðslu, forræðishyggju eða ósanngirni af hálfu ríkisins eða annarra yfirvalda. Í því samhengi eru „fasískir tilburðir“ einfaldlega viðleitni manna til þess að ráðskast með aðra eftir eigin geðþótta.
Nánar um efnið má t.d. lesa á grein vísindavefsins um fasisma.
*Myndin sem fylgir greininni er af Benito Mussolini, upphafsmanni fasismans og leiðtoga Ítalíu á árunum 1922-1943.
Í fasistaríkjum var leiðtoginn dýrkaður sem holdgervingur þjóðarinnar og hafði hann allt vald ríkisins í höndum sér.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?