Alþingi fer með löggjafarvaldið á Íslandi. Það þýðir að Alþingi er eini aðilinn sem má setja lög og breyta þeim. Alþingismenn og ráðherrar geta lagt fram svokölluð frumvörp um ný lög eða breytingar á lögum, en meirihluti alþingismanna verður alltaf að samþykkja þau.
Á Alþingi sitja 63 þingmenn sem eru kosnir af þjóðinni, yfirleitt á fjögurra ára fresti, og þiggja laun fyrir þingstörf sem standa yfirleitt á tímabilinu október-desember og janúar-júní ár hvert.
Setur Alþingi eingöngu lög?
Á Íslandi ríkir þingræði, samkvæmt venju sem byggir á 1. grein stjórnarskrárinnar. Þýðir það að meirihluti Alþingis getur sagt ríkisstjórninni eða einstökum ráðherrum upp og verða þeir þá að víkja. Þess vegna hefur Alþingi eftirlit með ríkisstjórninni, spyr ráðherra spurninga og krefur þá um upplýsingar svo að þeir séu örugglega að fylgja stefnu og vilja þingsins.
Alþingi fer sömuleiðis með fjárstjórnarvaldið á Íslandi; öll útgjöld ríkisins eru undir stjórn Alþingis, sem samþykkir fjárlög á hverju hausti sem kveða á um útgjöld fram á næsta haust. Oft samþykkir Alþingi síðan svokölluð fjáraukalög á miðju tímabilinu, sem leyfa hinu opinbera að eyða meira fjármagni í afmörkuð verkefni eða útgjöld.
Alþingi getur líka samþykkt svokallaðar þingsályktunartillögur; þar sem þingið lýsir einhverju yfir eða felur ríkisstjórninni að framkvæma eitthvert tiltekið verk.
Hvað gera Alþingismenn?
Á Alþingi sitja 63 þingmenn sem eru kosnir af þjóðinni, yfirleitt á fjögurra ára fresti, og þiggja laun fyrir þingstörf sem standa yfirleitt á tímabilinu september-desember og janúar-júní ár hvert.
Þingmenn funda í þingsal Alþingis eftir hádegi mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga en fyrir hádegi á fimmtudögum og stundum á föstudögum. Á þingfundi greiða þeir atkvæði um mál og halda þingræður eða spyrja ráðherra spurninga. Þegar þingmenn eru ekki á þingfundi sitja þeir fundi með þingnefndum eða vinna að málum og lagafrumvörpum á eigin tíma.
Sjá meira á vef Alþingis.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?