Hvað er félagsleg frjálshyggja?

Út frá átökum sósíalisma og kapítalisma á síðari hluta 19. aldar þróuðust ýmsar hugmyndir sem vildu leitast eftir jöfnuði og samvinnu í samfélaginu án þess að segja endilega skilið við kapítalisma eða frjálshyggju.

Heimspekingar á borð við John Dewey og John Rawls hafa þannig t.d. útfært áherslu klassískrar frjálshyggju á réttindi og jafnræði einstaklinga til þess að réttlæta kröfu sína um velferðarkerfi og samfélagslegan jöfnuð. Þeir töldu að einstaklingar hefðu ekki eingöngu rétt á frelsi – heldur líka á grundvallarlífsgæðum og tækifærum til þess að taka þátt í samfélaginu og nýta hæfileika sína til jafns við aðra.

Þeir héldu því fram að mannréttindi krefðust ekki bara afskiptaleysis af öðrum, heldur legðu þau skyldu á herðar einstaklinga til þess að tryggja öðrum þau réttindi í reynd.

Út frá þessum hugmyndum gerðu félagslegir frjálshyggjumenn kröfu um að samfélagið tryggði félagslegan og efnahagslegan jöfnuð einstaklinga upp að nokkru marki og tryggði þeim jafnari tækifæri og framfærslu í samfélaginu með t.d. ríkisrekinni menntun og heilsugæslu.

Ruglandi hugtök?

Félagsleg frjálshyggja (e. egalitarian liberalism) er nokkurs konar málamiðlun á félagshyggju (e. socialism) og klassískri frjálshyggju (e. classical liberalism) en orðið félagshyggja hefur reyndar verið notað á íslensku yfir bæði félagslega frjálshyggju og sósíaldemókratisma, á meðan tökuorðið sósíalismi hefur verið notað yfir enska hugtakið socialism.

Félagsleg frjálshyggja er fyrst og fremst notuð til þess að skilgreina Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum og útskýrir hvers vegna þeir eru kallaðir „liberals“, eða frjálshyggjumenn, þar vestra á meðan Repúblikanaflokkurinn er kenndur við „libertarianism“, sem má segja að sé annað orð yfir ný-frjálshyggju eða neo-liberalism.

Erfitt að gera ljósan greinarmun á milli félagslegrar frjálshyggju og sósíaldemókratisma; hvoru tveggja leggur áherslu á bæði frelsi og jöfnuð. Þó mætti segja að félagsleg frjálshyggja sæki þá kröfu frekar í klassíska frjálshyggju og hallist að henni, á meðan sósíaldemókratismi sæki kröfur sínar frekar í hugmyndaheim sósíalisma.

Þeir héldu því fram að mannréttindi krefðust ekki bara afskiptaleysis af öðrum, heldur legðu þau skyldu á herðar einstaklinga til þess að tryggja öðrum þau réttindi í reynd.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar