Hvað er sósíalismi?
Sósíalismi er pólitísk hugmyndafræði sem leggur áherslu á samfélagslegan jöfnuð, samvinnu manna og þjóðnýtingu framleiðslu í gegnum ríkið.
Sósíalisma (e. „socialism“) má þýða beint yfir á íslensku sem „félagshyggju“, þar sem „social“ þýðir félagslegt. Þannig má stilla sósíalisma upp sem nokkurs konar andstæðu við þá „einstaklingshyggju“ ( e. „individualism“) sem frjálshyggja hefur jafnan staðið fyrir.
Þannig leggur sósíalismi áherslu á hið félagslega í samfélaginu, sambúð einstaklinga og heildina sem þeir mynda (stundum kallað „heildarhyggja“ eða „collectivism“ á ensku) á meðan einstaklingshyggja leggur áherslu á einstaklingana sem mynda þá heild; frelsi, sjálfstæði og sjálfsábyrgð hvers og eins.
Hvaðan kemur sósíalismi?
Sennilega hefur togstreita milli vægi einstaklingsins annars vegar og heildarinnar eða samfélagsins hins vegar lengi verið áberandi í hugum og stjórnmálum manna. Sem stjórnmálastefna kom sósíalismi þó líklega fyrst fram á fyrri hluta 19. aldar.
Þá töluðu franskir félagshyggjumenn á borð við Saint-Simon og Charles Fourier fyrir því að framleiðsla iðnaðarins, fyrirtæki og eignir atvinnurekenda væri þjóðnýtt í þágu heildarinnar og settu stundum á fót lítil samfélög manna sem höfðu það að leiðarljósi; svokölluð „samyrkjubú“. Þeir vildu því að framleiðendur ynnu saman að því að tryggja velferð allra, dreifa bæði vinnu og gæðum jafnt sín á milli og útrýma þannig fátækt hinna verr settu í samfélaginu, sem og almennum ójöfnuði.
Sósíalistar hafa síðan talað fyrir ýmsum gerðum félagslegrar samvinnu og efnahagslegs jöfnuðar og gagnrýnt hinn frjálsa markað, eignaréttinn, efri stéttir og atvinnurekendur í mörgum vestrænum samfélögum á ýmsan hátt. Þegar leið á 19. öldina kom síðan upp áhrifaríkur angi sósíalismans, sem Karl Marx og Friedrich Engels gerðu afgerandi skil í Kommúnistaávarpi sínu árið 1848; kommúnismi.
Á Íslandi hafa stjórnmálahreyfingar á borð við Sósíalistaflokkinn, Alþýðubandalagið, Fylkinguna og stundum Vinstrihreyfinguna – Grænt framboð verið kennd við sósíalisma.
*Myndin er af Einari Olgeirssyni, formanni Sósíalistaflokksins frá 1939-1968 og einum allra áhrifamesta leiðtoga sósíalista á Íslandi. Myndin er fengin af vef Alþingis.
Þannig leggur sósíalismi áherslu á hið félagslega í samfélaginu, sambúð einstaklinga og heildina sem þeir mynda.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?