Persónukjör er það kallað þegar fólk kýs einstaklinga í kosningum í stað þess að merkja einfaldlega við framboðslista stjórnmálasamtaka eins og tíðkast í alþingiskosningum og flestum sveitarstjórnarkosningum.

Forseti Íslands er t.d. kosinn persónukjöri/einstaklingskjöri, sveitarstjórnarfulltrúar í mörgum smærri sveitarfélögum landsins eru það líka og sömuleiðis var kosið til Stjórnlagaþings eftir persónukjöri. Flest félagasamtök, verkalýðsfélög og óformlegri hópar notast líka við persónukjör, þar sem formaður félagsins er t.d. kosinn sérstaklega, síðan varaformaður og svo framvegis.

Forseti Bandaríkjanna er síðan kosinn á einstaklingsgrundvelli, þó kjósendur séu í raun tæknilega að kjósa stuðningsmenn einstaklingsins frekar en einstaklinginn sjálfan. Sjá nánar um forsetakosningar í Bandaríkjunum (kemur síðar).

Útstrikanir og endurröðun frambjóðenda í kosningum eru líka nokkurs konar persónukjör, þar sem fólk getur haft áhrif á það hvaða einstaklingar ná kjöri í flokknum sem það kýs.

Hvernig væri persónukjör til Alþingis?

Nokkuð hefur verið rætt um hvort auka eigi persónukjör í alþingiskosningum og miða tillögur Stjórnlagaráðs t.d. að því.

Hægt er að taka upp persónukjör með margvíslegum hætti og útfærslum, oft í bland við listakosningar og kjördæmalista flokka. Sums staðar hafa flokkar t.d. val um hvort þeir raða sjálfir upp lista eða láta kjósendur alfarið um það og víða er nokkuð flókin blanda persónu- og listakosninga við lýði.

Sömuleiðis er misjafnt hvernig kjósendum er gert kleift að kjósa einstaklinga og hvaða áhrif það hefur á úrslitin, svo sem hvort kjósendur mega merkja við einn eða fleiri frambjóðanda og hvort þeir mega raða þeim í forgangsröð eða ekki.

Þá hefur þetta allt saman áhrif á hvernig kosningarnar fara, og eru til margar mismunandi leiðir til þess að reikna úrslit úr persónukosningum, eins og raunar úr öllum öðrum kosningum.

Sjá einnig:

grein um íslensk kosningakerfi á Áttavitanum,
greinina „Um Persónukjör“ eftir Þorkel Helgason,
frumvarp Alþingis um persónukjör í alþingiskosningum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar