Hvernig hefur atkvæði mitt áhrif á það hverjir setjast á þing eða í sveitarstjórn?

Í alþingiskosningum og flestum sveitarstjórnarkosningum á Íslandi velja kjósendur framboðslista í svokölluðum hlutfallskosningum.

Þýðir það að flokkar eða samtök sem bjóða fram framboðslista eiga að fá sæti á þingi eða í sveitarstjórn sem eru í hlutfalli við atkvæðin sem þau fengu í kosningunum. Þ.e. flokkur sem fær 20% atkvæða ætti að fá 20% þingmanna eða sveitarstjórnarmanna. Þetta þýðir að því fleiri sem greiða framboðslista atkvæði, því fleiri frambjóðendur þeirra ættu að komast á þing.

Í sumum fámennari sveitarfélögum eru reyndar ekki kosnir framboðslistar heldur einstaklingar (sjá grein um sveitarstjórnarkosningar). Hver kjósandi velur einfaldlega þá einstaklinga sem hann vill að komist að í sveitarstjórnina og þeir sem fá flest slík atkvæði ná kjöri.

Er þetta svona einfalt?

Reyndar ekki. Vegna þess að þingmenn eru mun færri en kjósendur er ekki hægt að úthluta framboðslistum nákvæmlega sama hlutfall af þingmönnum og þeir fengu af atkvæðum.

Þá þarf að finna almenna reglu til þess að námunda og úthluta sætum með sanngjörnum hætti. Ekki er þó sjálfsagt hvaða reglu á að nota og þess vegna hafa ríki, sveitarstjórnir og félög notast við ótal ólíkar aðferðir í gegnum tíðina. Þessar ólíku aðferðir við að kjósa fulltrúa og úthluta þeim embættum eftir kosningar kallast „kosningakerfi“.

Íslenska kosningakerfið

Í alþingiskosningum og flestum sveitarstjórnarkosningum notast Íslendingar við kerfi sem kallast „d’hondt“ kerfið.

Kerfið byggir eins og flest kosningakerfi á reikningsreglu:

  1. Í hverju kjördæmi eða sveitarfélagi er skoðað hversu margir kjósendur merktu við hvern framboðslista.
  2. Fyrir hvern framboðslista er þeirri tölu, þ.e. fjölda atkvæða, síðan deilt í 2.
  3. Tölunni er síðan aftur deilt í 3, síðan 4 o.s.frv. fyrir hvern lista.
  4. Allar tölurnar, þ.e. atkvæðafjöldi framboðslista og þær tölur deilt í 2, 3, 4 o.s.frv. eru síðan settar upp í töflu.
  5. Framboðslistinn sem á hæstu töluna í töflunni fær fyrsta þingmann í kjördæminu eða fyrsta fulltrúann í sveitarstjórn.
  6. Sú tala er þá strikuð út og listinn sem á næst-hæstu töluna fær næsta mann inn.
  7. Þessi skoðun er endurtekin þangað til öllum sætum í boði hefur verið úthlutað.

Dæmi:

Í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík árið 2010 skiptust atkvæði milli flokka á eftirfarandi hátt:

  • Besti Flokkurinn fékk 20.666 atkvæði.
  • Sjálfstæðisflokkurinn fékk 20.006 atkvæði.
  • Samfylkingin fékk 11.344 atkvæði.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk 4255 atkvæði.
  • „Framsóknarflokkurinn“, „Reykjavíkurframboðið“, „Framboð um almannahagsmuni og heiðarleika“ og „Frjálslyndi flokkurinn og óháðir“ fengu mun færri atkvæði og verða ekki tekin með hér, til einföldunar

Þá búum við til töflu þar sem við deilum atkvæðafjölda hvers flokks í 2, 3, 4 o.s.frv. eins og áður sagði:

 

Framboð Besti Flokkur Sjálfstæðisflokkur Samfylking Vinstri-grænir
Atkvæði 20.666 20.006 11.344 4.255
Atkvæði /2 10.333 10.003 5.672 2.128
Atkvæði /3 6.889 6.669 3.781 1.418
Atkvæði /4 5.167 5.002 2.836 1.064
Atkvæði /5 4.133 4.001 2.269 851
Atkvæði /6 3.444 3.334 1.891 709
Atkvæði /7 2.952 2.858 1.621 608

Í Reykjavík eru 15 borgarfulltrúar, svo við þurfum að úthluta 15 sætum:

  1. Hæsta talan í töflunni er efsta atkvæðatalan í dálk Besta flokksins. Hann fær því fyrsta fulltrúann.
  2. Næst-hæsta talan er atkvæðatala Sjálfstæðisflokksins. Hann fær því næsta fulltrúa.
  3. Þriðja hæsta talan er atkvæðatala Samfylkingarinnar og hún fær þann þriðja.
  4. Nú er fjórða hæsta talan ekki einföld atkvæðatala neins flokks, heldur atkvæðatala Besta flokksins deilt í 2, þess vegna fær Besti flokkurinn næsta fulltrúa.
  5. Svona er haldið áfram koll af kolli, þangað til við erum komin með 15 fulltrúa.

 

Framboðs Besti Flokkurinn Sjálfstæðisflokkur Samfylking Vinstri-grænir
Atkvæði #1. 20.666 #2. 20.006 #3. 11.344 #11. 4.255
Atkvæði /2 #4. 10.333 #5. 10.003 #8. 5.672 2.128
Atkvæði /3 #6. 6.889 #7. 6.669 #14. 3.781 1.418
Atkvæði /4 #9. 5.167 #10. 5.002 2.836 1.064
Atkvæði /5 #12. 4.133 #13. 4.001 2.269 851
Atkvæði /6 #15. 3.444 3.334 1.891 709
Atkvæði /7 2.952 2.858 1.621 608

Hér sjáum við að Besti flokkurinn fær 6 borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn 5, Samfylkingin 3 og VG fær einn fulltrúa (þann 11. inn í borgarstjórn).

Til að flækja málin enn frekar geta kjósendur strikað út af framboðslistanum í kosningunum eða endurraðað listanum og þannig haft áhrif á hvaða einstöku frambjóðendur ná kjöri. Sjá útskýringu á útstrikunum*

Ofan á þetta allt bætast svokallaðir jöfnunarþingmenn* Í alþingiskosningum. Það eru þingmenn sem eiga að vega á móti misvægi atkvæða*(um kjördæmi).

Á vef um kosningarkerfi til forsetakosninga má finna frekari upplýsingar um kosningakerfi í forsetakosningum á Íslandi ásamt upplýsingum um önnur kosningakerfi.

Sjá einnig:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar